Karlareið Gönduls var vel sótt

Mikil óskapleg gleði ríkti í karlareið Göndulsins um síðustu helgi. Mynd: Magnús Ringsted.

Karlarnir á norðanverðum Vestfjörðum sem kunna eitthvað að sitja hesta, geta ekki verið minni en konurnar á sama svæði og þess vegna fóru þeir í karlareið um síðustu helgi. Viðburðurinn kallast karlareið Göndulsins og mennirnir hafa hittst og riðið saman fimm ár í röð. Konurnar hafa aftur á móti farið í kvennareið í tíu ár og ríða aldrei í sama firði tvö ár í röð en karlarnir eru vanafastari og eru bara á einu svæði eða í Önundarfirði.

BB náði í rassinn á póstinum á Flateyri sem jafnframt er annar skipuleggjanda viðburðarins en það er Magnús Ringsted, margkunnur hestamaður á norðanverðum Vestfjörðum og af mörgum talinn einn eftirsóttasti piparsveinninn og smalinn á þessu svæði.

„Við vorum 36 karlar núna og fórum góðan hring í Önundarfirði,“ segir Magnús. „Við höfum ákveðið að vera bara á einu svæði en ekki rúnta hér í kring og riðum góðan hring og til dæmis fjörurnar við Holt í Önundarfirði. Við stoppum líka alltaf í kaffi og kökur við Betaníukot á Bakkahlíðinni. Þá höfum við oft verið með brennu en það hefur dottið upp fyrir sig,“ segir Magnús og flissar örlítið vandræðalega, „það var svolítið stórt um sig,“ bætir hann við.

„Bjössi á Þórustöðum í Önundarfirði hefur verið aðalskipuleggjandinn og séð bæði um matinn og annað varðandi reiðina. Ég hef aðstoðað hann við þetta, séð um skráningar og sósur svo dæmi sé tekið. Reynt að hjálpa honum við þetta eftir fremsta megni.“

Þau sem hafa rekist á karla sem eru á leið í karlareið Göndulsins eða nýkomnir þaðan vita að þetta er hin mesta skemmtun sem enginn vill missa af. Jafnvel þó dagsetningin sé sjaldnast ákveðin hálft ár fram í tímann þá eru margir farnir að hlakka til um leið og þeir stíga af baki að hausti. Allir geta verið með, svo lengi sem þeir eru orðnir 18 ára og sæmilega hestfærir. Magnús segir að reiðmennirnir hafi fengið temmilegt reiðveður í þetta skiptið. Þurrt og sólarlaust og mjög fínt.

„Það voru allir mjög ánægðir með þessa hópreið í ár og gaman að sjá hvað hestamenn eru að gera og koma saman og ríða út. Þarna koma menn frá öllum stöðum í Ísafjarðarbæ og úr Bolungarvík. Vonandi heldur þetta áfram eins og þetta er og vonandi koma sem flestir. Það er virkilega gaman að sjá hversu mikill fjöldi safnast saman því hestamennirnir á svæðinu eru ekki svo margir í raun. Svo þetta er frábært framtak,“ segir Magnús að lokum og við það er hann þotinn með póstinn í næstu hús og firði en myndirnar eru fengnar frá honum og birtar með góðfúslegu leyfi hans.


Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA