Það eru sumar stofnanir sem allir vita hvað eru en samt veit einhvernveginn enginn hvað þær gera. Mögulega er Vestfjarðastofa eitt af þessum fyrirbærum, eins og margar hverjar af stofunum og setrunum sem eru um allt land og gengur vel en fólk veit ekki alveg í hverju samt. Gallinn við þessar stofur og setur er að allir eiga að vita hvað þær eru að gera og þess vegna þykir stundum heimskulegt að spyrja ef einhver veit það ekki. Það fást þó engin svör ef ekki er spurt og þess vegna ákvað blaðamaður að senda póst til Sigríðar Ó. Krisjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu og spyrja fyrir hvað þessi stofa standi eiginlega. Og það er ekkert smá hlutverk sem Vestfjarðastofa hefur:
„Hlutverk Vestfjarðastofu er að styðja einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög á Vestfjörðum við að ná árangri á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Vestfjarðastofa er í forsvari gagnvart stjórnvöldum, sinnir markaðssetningu og svæðasamstarfi á Vestfjörðum,“ svaraði Sigríður.
Jahá. Þá vitum við það. Vestfjarðastofa er amman og mamman og pabbinn sem við þurfum öll á að halda til að styðja okkur og svara fyrir okkur gagnvart öðrum. En hvað á að gerast í framtíðinni? „Framtíðarsýn Vestfjarðastofu er að samþætta krafta landshlutans, fylgja eftir hagsmunum umhverfis, samfélags og efnahagslífs byggðanna og stuðla þannig að öflugum og sjálfbærum Vestfjörðum.“
Þetta er auðvitað verkefni sem allir Vestfirðingar þurfa að taka þátt í og jafnvel brottfluttir og velunnarar líka. Vestfjarðastofa aðstoðar einmitt einstaklinga og fyrirtæki við að koma sér af stað og til dæmis eru þau núna að auglýsa eftir umsóknum fyrirtækja í ferðaþjónustu til að efla stafræna getu sína. Vestfjarðastofa sinnir auk þess málefnum sem heyrðu áður undir Markaðsstofu Vestfjarða, til dæmis vefnum www.westfjords.is og samfélagsmiðlum undir merkjum VisitWestfjords.
„Við vinnum einnig að áfangastaðaáætlun Vestfjarða, móttöku blaðamanna og fleiri verkefnum tengdum ferðaþjónustu. Mörg verkefna heyra undir hagsmunagæslu fyrir svæðið svo sem umsagnir um lagafrumvörp, samtöl við ríkisvaldið, samstarf sveitarfélaga, samstarf fyrirtækja svo sem verkefni sem við erum að setja af stað núna sem eru málefnahópar sem varða vaxtargreinar Vestfjarða, sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku. Við höldum utan um verkefni vegna Brothættra byggða á Þingeyri og í Árneshreppi,“ segir Sigríður og það er greinilega í mörg horn að líta.
„Vestfjarðastofa heldur utan um Sóknaráætlun Vestfjarða og vinnur að verkefnum sem falla undir hana svo sem utanumhald á Uppbyggingarsjóði og áhersluverkefni Sóknaráætlunar. Stórt verkefni sem er unnið er að núna kallast “Vestfirðir 2035” og er sviðsmyndagreining fyrir Vestfirði sem á að draga fram hugsanlega þróun atvinnu- og mannlífs á svæðinu fram til ársins 2035. Það verkefni er unnið í samstarfi við Framtíðarsetur Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og KPMG,“ en frá því var sagt á BB í morgun.
Sigríður var nýlega á fundi með bæjarráði Vesturbyggðar þar sem þessi verkefni voru rædd, auk þess sem talað var um að ráða nýjan verkefnastjóra Vestfjarðastofu á suðursvæði Vestfjarða. Nú þegar starfa sjö manns hjá Vestfjarðastofu á Ísafirði, tveir á Hólmavík og einn til viðbótar bætist við á Þingeyri 1. september. Svo þetta er greinilega stórt og vaxandi batterí, sem heldur utan um hagsmunagæslu Vestfirðinga.
Sæbjörg
bb@bb.is