Fram kemur á vef Vestfjarðastofu að stofnunin vinni nú að verkefni til að bæta stafræna getu ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu. Segir að markmið verkefnisins sé að auka samkeppnishæfi fyrirtækjanna og ýta undir markvissari markaðssetningu og vörum og þjónustu þeirra. Athygli er vakin á að aðeins takmarkaður fjöldi fyrirtækja getur tekið þátt í verkefninu. Fenginn hefur verið ráðgjafi sem mun vinna með hverju fyrirtæki fyrir sig og farið verður í greiningu, mótun stefnu og val á miðlum. Í kjölfarið þess mun ráðgjafinn aðstoða fyrirtækin við fyrstu skrefin.
Fyrirtækin taka þátt í verkefninu sér að kostnaðarlausu en þau verða að skuldbinda tíma í verkefnið, bæði í vinnu með ráðgjafanum sem og milli funda. Reiknað er með að hvert fyrirtæki fái tólf klukkustundir með ráðgjafanum sér að kostnaðarlausu en fyrirtækjunum býðst eftir verkefnið að kaupa áframhaldandi ráðgjöf á sérkjörum. Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu þurfa að senda inn umsókn fyrir 10. september næstkomandi. Hægt er að nálgast eyðublað til skráningar á vef Vestfjarðarstofu.
Bent er á að fyrirtæki sem eru aðilar að Markaðsstofu Vestfjarða hafa forgang í verkefnið.
Aron Ingi
aron@bb.is