Opnaði netverslun með skó í byrjun sumars

Ingimar Aron Baldursson.

Ingimar Aron Baldursson er 19 ára kappi frá Ísafirði. Hann spilar körfubolta með meistaraflokki Vestra, er að læra viðskiptafræði í fjarnámi við Háskólann á Bifröst og vinnur hjá Artic fish. Þess utan er hann að stofna sitt eigið fyrirtæki á netinu sem heitir sidestore.net. Þar selur hann merkjavörur og íþróttaskó.

En hvað fær 19 ára gutta til að opna skóbúð á netinu. Ingimar segir að það hafi gerst þannig að hann hafi keypt sér skó en séð samskonar par á íslenskri vefsíðu daginn eftir en mun ódýrara. „Og þá hugsaði ég með mér, þetta er eitthvað, það er hægt að gera eitthvað með þetta,“ segir Ingimar þegar blaðamaður forvitnast um það af hverju hann reki vefverslun.

„Svona lítur heimili mitt oft út,“ sagði Ingimar.

„Ég er aðallega að selja skó frá Adidas og Nike og svona hliðarvörumerki hjá þeim, það eru til dæmis svona skór sem íþróttamenn eru mikið að nota og þeir hanna. Til dæmis eru skórnir hans Michael Jordan rosalega vinsælir, þeir eru búnir að vera í tísku síðan 1990,“ segir Ingimar. „Og svo er aðalæðið núna er það sem kallast Yeezys sem eru skór sem Kanya West hannaði og það eru fullt af öðrum svona inflúensurum sem eru líka að gefa út skó. Þessir skór hafa það sem er kallað „endursöluvirði.“ Þegar þeir koma út þá bíður fólk í röðum og jafnvel yfir nótt í Bandaríkjunum og ástæðan fyrir því er að verðið margfaldast um leið og þeir seljast upp. Til dæmis þá kosta skór sem fara kannski út á 30 þúsund þeir kosta 60 þúsund daginn eftir. Bara af því það er svo mikil eftirspurn en þeir framleiða ekki svo mikið að allir geti fengið þá. Þannig að framboðið er takmarkað.“

„En ég býð líka upp á allskonar þjónustu og er með fullt af aukahlutum fyrir skó,“ segir hann ennfremur. „Til dæmis efni sem láta skóna endast lengur og líta betur út, fyrir spariskóna þá erum við til dæmis með skótré sem fara ofan í skóna og halda náttúrulegu formi skónna lengur. Þetta er til dæmis mjög hentugt fyrir dýra leðurskó. Og íþróttaskó, því þetta tekur rakann út úr skónum áður en svitinn fer að skemma þá og allskonar vatnsheld sprey og allskonar.“

Þetta eru skór sem Ingimar þreif. Mynd: Aðsend.

Það eru ekki allir ungir menn sem selja skó og alls ekki margir sem eru í samstarfi við fjölda fyrirtækja úti í heimi. Það er Ingimar engu að síður og hann á í góðu samstarfi við stórt fyrirtæki í London sem sérhæfir sig í umhugsun, þrifum og umhirðu á skóm. Hann er einnig með tengsl til Bandaríkjanna og Spánar en aðalverkefnið síðan Ingimar ákvað að opna vefsíðuna í byrjun sumars hefur verið að byggja upp þetta tengslanet og markaðssetja fyrirtækið.

„Það sem er erfiðast við að stofna ný netfyrirtæki er að markaðssetja sig. Það er rosalega dýrt og kostnaðarsamt. Hingað til hefur mér þó gengið ágætlega, og ég er að senda frá mér 3-4 pantanir í viku sem er fínt í byrjun. Síðan er með um það bil 1000 heimsóknir á viku og stundum er það meira þegar það eru tilboð eða auglýsingar í gangi,“ segir Ingimar og bætir við að hann sé að taka þátt í nýjum nýju kaupmynstri fólks, þar sem það veit hvað það vill og hann aðstoði einungis við það. Framtíðin er efalaust björt hjá þessum hæfileikaríka unga manni og það verður áhugavert að fylgjast með fyrirtæki hans í framtíðinni.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA