Stofnsetning þjóðskógar á Vestfjörðum á næstu árum

Unnið er að stofnsetningu þjóðskógar á Vestfjörðum.

Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að forsvarsmenn Skógræktarinnar séu væntanlegair til Vestfjarða dagana 3. til 8. september. Við það tilefni munu Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðsstjóri skógarauðlindasviðs, ásamt heimamönnunum og skógræktarráðgjöfunum Sæmundi Þorvaldssyni og Kristjáni Jónssyni, verða á ferð um Vestfirði til að skoða jarðir eða svæði sem hugsanlega kæmu til greina fyrir stofnsetningu þjóðskógar á næstu árum.

Í fundargerðinni segir að samkvæmt Sæmundi Þorvaldssyni skógræktarráðgjafa, þá væri nærtækast að horfa til jarða í eigu ríkisins, sem ekki eru í ábúð, svo fremi að þær henti almennt til skógræktar af öðrum ástæðum og að aðgengi að þeim sé gott. Fáar ríkisjarðir eða jafnvel engar eru norðan Arnarfjarðar í Ísafjarðarbæ en í hinum forna Auðkúluhreppi eru nokkrar sem eru í eigu ríkis eða ríkisstofnana. Einnig gæti Skógræktin hugsað sér að gera langtíma samninga um heppilega jörð í eigu sveitarfélags og þá eru einhverjar innan Ísafjarðarbæjar s.s. Sandar í Dýrafirði og Kirkjuból í Engidal og ef til vill fleiri.

Á Íslandi er fjöldi þjóðskóga sem opnir eru almenningi og í sumum þeirra eru tjaldsvæði. Skógræktin á eða hefur í sinni umsjá ríflega fimmtíu lendur um allt land að undanskildum Vestfjörðum. Skógarnir sem vaxa þar eru kallaðir þjóðskógar. Þeir eru öllum opnir allan ársins hring. Margir skóganna eru í alfaraleið og því vel aðgengilegir en aðrir eru úr alfaraleið og erfitt getur reynst að komast að þeim.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA