Ragnar Bragason Íslandsmeistari í Hrútadómum

Í flokki vanra sigraði Ragnar Bragason bóndi á Heydalsá við Steingrímsfjörð þetta árið. Í öðru sæti varð Elvar Stefánsson í Bolungarvík og Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Saurbæ í þriðja sæti. Mynd: Dagrún Ósk.

Það var mikið líf og fjör á sunnudaginn þegar Íslandsmeistaramótið í hrútadómum fór fram á Sauðfjársetrinu á Ströndum. Fjöldi fólks kom þar saman til að taka þátt í dómunum, skoða hrútana, gæða sér á kökum og kaffi og fylgjast með þuklurunum ræða málin í góða veðrinu. Um 50 keppendur tóku þátt í mótinu að þessu sinni en margfalt fleiri mættu til að fylgjast með og áætlar starfsfólk Sauðfjársetursins að yfir 300 manns hafi heimsótt Sævang yfir daginn.

Keppin snýst um að raða fjórum veturgömlum hrútum í röð eftir því hver þeirra er bestur. Áður en keppnin hefst er dómnefnd jafnan búin að velja fjóra dálítið ólíka hrúta úr stærri hópi fyrir keppendur að leggja mat á, en að þessu sinni var Sigríður Ólafsdóttir ráðunautur frá Víðidalstungu yfirdómari.

Keppt er í tveimur flokkum, annars vegar vanir hrútadómarar sem kunna að stiga hrúta etir öllum kúnstarinnar reglum og er keppt um Íslandsmeistaratitil í þeim flokki. Í hinum riðlinum keppa óvanir hrútaþuklarar sem eiga að raða þessum sömu fjórum hrútum í gæðaröð og rökstyðja matið.

Í flokki óvanra sigraði Elín Þóra Stefánsdóttir í Bolungarvík, í öðru sæti var Marinó Bjarnason á Eysteinseyri í Tálknafirði, í þriðja sæti voru Guðlaug Elíasdóttir og Hrefna Sigurgeirsdóttir í Minni Hlíð, Bolungarvík. Mynd: Dagrún Ósk.
Vanir hrútaþuklarar stiga hrútana eftir öllum kúnstarinnar reglum. Mynd: Dagrún Ósk.
Það var margt um manninn á Hrútadómunum í ár, líkt og áður. Mynd: Dagrún Ósk.

Það var Ragnar Bragason bóndi á Heydalsá við Steingrímsfjörð sem stóð uppi sem sigurvegari og Íslandsmeistari þetta árið. Í öðru sæti varð Elvar Stefánsson í Bolungarvík og Guðmundur Gunnarsson á Kjarlaksvöllum í Saurbæ í þriðja sæti. Þetta er í fyrsta skipti sem Ragnar sigrar í keppninni, en þeir sem voru með honum á verðlaunapallinum hafa báðir landað titlinum áður, einu sinni hvor.

Í flokki óvanra hrútaþuklara sigraði Elín Þóra Stefánsdóttir í Bolungarvík, í öðru sæti var Marinó Bjarnason á Eysteinseyri í Tálknafirði, í þriðja sæti voru Guðlaug Elíasdóttir og Hrefna Sigurgeirsdóttir í Minni Hlíð, Bolungarvík svo það má með sanni segja að Vestfirðingar hafi komið sterkir inn þetta árið.

Á hrútadómunum var einnig haldið líflambahappdrætti þar sem í vinninga
voru gæðalömb frá bændum á Ströndum og við Djúp, frá bæjunum
Broddanesi, Húsavík, Bassastöðum, Miðhúsum og Skjaldfönn. Góð þátttaka
var í happdrættinu og dreifðust vinningarnir víða um land.

Dagrún
dagrun@bb.is

DEILA