Súkkulaði í Súðavík

Ævintýrin gerast enn og á gamalli konungsjörð við Eyrardal við Súðavík eru spennandi hlutir að gerast. Jörð sem danakonungur gaf Jóni Indíafara á sínum tíma fyrir vel unnin störf. Þar rekur Elsa Borgarsdóttir súkkulaðiverksmiðjuna Sætt og Salt í bílskúr á fyrrum óðali Auðuns Karlssonar. Blaðamaður BB kíkti í heimsókn til að kynna sér starfsemina og framtíðarhorfur súkkulaðiframleiðslunnar.

Það fyrsta sem kom upp í hugann við komuna í Sætt og salt er ein af uppáhalds kvikmyndum blaðamanns, Chocolat, með Juliette Binoche og Jonny Depp í aðalhlutverkum. Sagan gerist í ítölsku fjallaþorpi þar sem lífsglöð og drífandi ung kona kemur og sest að og opnar súkkulaði og konfekt gerð, íbúum til mikillar furðu, enda stakk það í stúf við hefðbundna starfsemi þorpsins. Þorpið varð aldrei samt eftir þetta!

Elsa á sér einmitt þann draum að nafn Súðavíkur verði í framtíðinni tengt við súkkulaði og það verði það fyrsta sem komi upp í huga landsmanna þegar þorpið ber á góma. Heldur betur jákvæð ímynd; en skyldi það vera raunhæft?

Elsa er dóttir hjónanna Borgars Guðna Halldórssonar frá Snæfjallaströnd og Kristínar Ólafsdóttur frá Keldu í Mjóafirði. Elsa er gift Ásgeiri Hólm Agnarsyni sem bæði eiga rætur sínar við Djúp. Elsa hafði reynslu við rekstur á bakaríi á Húsavík, sem hún kom að frá 1983 til 2011, en það var áður í eigu Kaupfélags Þingeyinga. Þar kom reynsla af súkkulaði og skreytingum, en þegar karlarnir sem kíktu við í kaffi í bakaríinu vildu meira af sætindum sem meðlæti byrjaði hún á súkkulaðigerð og  að þróa uppskriftir. Hún fluttist síðan til Súðavíkur og rak Kaupfélagið þar um tíma en vorið 2015 hætti hún þar og sneri sér að hugðarefninu, súkkulaðigerð. Hún byrjaði í bílskúrnum hjá Ómari fyrrum sveitarstjóra og bjó þar vel að fyrri reynslu og þekkingu á súkkulaðigerð. Það stóð ekki á eftirspurninni eftir framleiðslunni og fljótlega var starfsemin búin að sprengja utan af sér húsnæðið.

Elsa og Ásgeir keyptu núverandi húsnæði 2017 og byrjaði að framleiða súkkulaði í bílskúrnum annan desember í fyrra. Þá hafði eiginmaður hennar horft til þessa húsnæðis um langan tíma, enda séð hana auglýsta í fasteignaauglýsingum. Hér mun draumurinn um súkkulaði í Súðavík vonandi rætast, og skapa bæði atvinnu og ímynd fyrir þetta litla vestfirska sjávarþorp sem áður lifði á fiski og rækju.

Gamla konungsjörðin við Eyrardal

Sætt og Salt er að landa samstarfs samningum við Bláa lónið sem mun gefa mikil tækifæri fyrir vinnsluna. Framleitt verður undir merki Bláa lónsins, en með tilvísun í handverk Sætt og salt. Það þykir eftirsóknarvert að komast að sem birgir fyrir fyrirtæki eins og Bláa lónið sem er með gríðarmikla umsetningu og móttöku ferðamanna árið um kring. Vörur Sætt og Salt hafa verið þar til sölu í rúmlega eitt ár. Fyrir Bláa lónið er verðið ekki aðal atriðið heldur ímynd vörunnar, handverkið og einstök gæði framleiðslunnar. Það má segja að varan hafi rutt brautina fyrir þetta eftirsótta viðskiptasamband, sem mun stór auka möguleika framtíðar fyrir Sætt og salt. Einnig hafa samningar verið gerðir við söluaðila víða um land.

Lykillinn að velgengni Sætt og salt byggir á yfirvegaðri uppbyggingu þar sem alltaf er leitað til fagmanna á hverju sviði; þekkingu á súkkulaði, grafískri hönnun við umbúðir og vörumerki og vandaðri ráðgjöf við fjármál. Eins og Elsa lýsir því sjálf þá hefur hún notað kvenlegt hyggjuvit við uppbygginguna „a dýfa löppum í fyrst en stökkva ekki“ Svona eins og að kunna fótum sínum forráð.

Allt byggir á handverkinu og varan endurspegli það gagnvart viðskipavininum. Að varan komi frá litlu vestfirsku þorpi þar sem einstaklingur hefur lagt alúð við hönnun og framleiðslu, skiptir öllu máli og það mun ekki breytast sama hvað fyrirtækið stækkar. Og stækkun er ekki spurning og nú leitar Elsa leiða til að byggja fyrirtækið upp til framtíðar. Í dag er hún einn eigandi og hefur byggt upp án skuldsetningar. Ef til vill mun súkkulaðiverksmiðja rísa við túnfótinn á gömlu konungsjörðinni, þar sem gestir geta notið unaðar súkkulaðis og veðurblíðu Súðavíkur, og horft yfir fegurð Djúpsins þar sem Kambsnesið speglast í Álftafirði.

Einkunnar orð Elsu, sem hefur fylgt henni alla tíð og er skrifað stórum stöfum á töflu yfir framleiðslulínunni eru „Oft leynist gull í grjóti“ Menn sjá ekki alltaf tækifærin og horfa til þess neikvæða, en það er allt hægt ef vilji og dugnaður er fyrir hendi. Til að svara spurningunni sem spurt var í upphafi um hvort draumsýn Elsu um Súðavík sé raunhæf, þá er svarið hiklaust já.

Við rætur fjallsins Kofra

Í Álftafirði hvílir lítið þorp.

Súðavík, þorp hamingju

Vona og drauma.

Elsa

 

 

 

 

 

 

Gunnar bb

 

 

DEILA