Ný rétt reist í Skeljavík

Haraldur V. A. Jónsson, Björn Pálsson og Jón Gísli Jónsson hvetja Grétar Matthíasson áfram með sögina. Ljósmynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Trésmiðjan Höfði vinnur þessa stundina af miklum krafti að byggingu nýrrar réttar í Skeljavík við Hólmavík fyrir sveitarfélagið Strandabyggð. Gamla réttin var á sama stað, en var rifin fyrir rúmlega viku síðan enda orðin gömul og léleg. Ljóst er að smiðirnir verða að hafa hraðar hendur því til stendur að rétta í nýju réttinni strax föstudaginn 7. september og hefjast réttarstörfin klukkan 16:00 þann dag. Fréttamaður BB leit við og ræddi við smiðina um hvernig verkefnið gengi.

Mynd úr Kirkjubólsrétt haustið 2017. Mynd Jón Jónsson.

Jón Gísli Jónsson varð fyrir svörum þegar spurt var um gang mála og sagði orðrétt: „Það gengur alveg frábærlega og meira að segja aðeins betur en það.“ Smiðirnir voru annars mjög spenntir fyrir kaffitímanum sem fréttamanni heyrðist á öllu að nálgaðist óðfluga og virtust ekki hafa miklar áhyggjur af hve knappur tími er framundan. Það er ekki að undra því smiðirnir eru vanir menn og í góðri æfingu því fyrir tveim árum endurnýjuðu þeir Kirkjubólsrétt við Steingrímsfjörð. Þá var sú gamla líka rifin og ný reist á sama stað og var mikil ánægja með þá framkvæmd. Réttin í Skeljavík er nokkuð stór og fullyrtu smiðirnir að hún myndi rúma allt að þúsund kindur í einu, almenningurinn er 6 metrar á breidd og 18 metrar á lengd og dilkarnir sem verða 11 talsins eru 8 metra langir hver.

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA