20 konur í kvennareið um síðustu helgi

Þær eru flottar vestfirsku hestakonurnar. Mynd: Guðríður Guðmundardóttir.

Tuttugu konur tóku þátt í Önfirskri kvennareið sem fór fram í níunda sinn síðastliðinn laugardag. Riðið var frá hesthúsahverfinu í Bolungarvík og inn í Syðri dal. Svala Björk Einarsdóttir, ein af skipuleggjendum kvennareiðarinnar þetta árið, sagði blaðamanni BB að vel hafi tekist til um helgina. „Við fórum inn í surtarbrandsnámu í Syðri dal og þótti viðstöddum það ofboðslega skemmtilegt. Við riðum svo inn í botn í Syðri dal þar sem við fengum okkur kökur og heitt súkkulaði, sungum og höfðum gaman. Við riðum svo að Þuríðarsteini og svo tilbaka inn í hesthúsahverfi.“ segir Svala Björk.

Mynd: Guðríður Guðmundardóttir.
Mynd: Guðríður Guðmundardóttir.
Mynd: Guðríður Guðmundardóttir.
Mynd: Sólrún Ósk Jónínudóttir.
Mynd: Sigríður Magnúsdóttir
Mynd: Sigríður Magnúsdóttir
Mynd: Sigríður Magnúsdóttir
Mynd: Sigríður Magnúsdóttir

Svala Björk segir að þetta sé önfirsk kvennareið, því þótt þetta sé haldið í Bolungarvík þá voru það önfirskar konur sem byrjuðu á þessu og þetta var alltaf haldið þar. Þó að þátttakendur séu farnir að ríða frá öðrum stöðum þá heldur þetta upprunalegu nafni sínu.

Að sögn Svölu Bjarkar þá mun reiðin fara fram í Önundarfirði á næsta ári þegar 10 ára afmælinu verður fagnað. „Þetta er gert til að efla vestfirskar hestakonur og gera eitthvað skemmtilegt saman. Þátttakendur eru 18 ára og eldri og greitt er þátttökugjald. Það eina sem þarf að gera er að koma með sinn hest og hnakk eða redda sér hesti og reiðtygjum. Það var grillað lambalæri og við vorum saman fram á nótt. Það er alltaf smá þema hverju sinni og í ár var drottningarreið, konurnar voru í allskonar klæðum með glimmer og slör.“ segir Svala Björk að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA