Það lýsir tvískinnungi hjá stærsta eiganda Arctic Sea Farm að stunda grænt laxeldi með geldfiski í Noregi á sama tíma og Arctic Sea Farm ætlar í stórfellt sjókvíaeldi á frjóum laxi af norskum uppruna. Þetta segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Sambandið sendi frá sér fréttatilkynningu í vikunni þar sem bent er á að Norway Royal Salmon, sem á 50% í Arctic Sea Farm, ráði yfir 10 svokölluðum grænum eldisleyfum í Noregi. Þar ætlar fyrirtækið að ala þrílitna ófrjóan lax. „Þeir ætla að nota geldstofna þar og því ætti mönnum ekki að vera neitt að vanbúnaði að nota þá hér líka,“ segir Jón Helgi. Í fréttatilkynningunni er fullyrt að skilyrði fyrir grænum leyfum í Noregi séu að í þeim sé eingöngu alinn geldlax og þegar Jóni Helga er bent á að það sé ekki alls kostar rétt, segir hann að kannski hafi verið tekið full sterkt til orða. „Aðalatriðið og það sem við erum að benda á er að fyrirtækið er í eldi á geldum fiski í Noregi en á Íslandi á að ala frjóan fisk, þrátt fyrir að hættan fyrir villtan fisk eigi að vera öllum augljós.“
Í fréttatilkynningu er minnst á erlend eignarhald Arctic Sea Farm, en auk Norway Royal Salmon er fyrirtækið í 47,5% eigu fyrirtækis sem er skráð á Kýpur. Jón Helgi segir mikilvægt að menn velti þessu vandlega fyrir sér og beri saman við hömlur á eignarhaldi í sjávarútvegi. „Í sjókvíaeldi er verið að nýta sjávarauðlindina og með leyfunum er verið að útdeila ákveðnum gæðum – gæðum sem eru metin á stórfé erlendis – og því þykir okkur sérstakt að það séu hömlur á erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi en ekki í sjókvíaeldinu.“
Aðspurður um erlent eignarhald laxveiðiáa og hvað sambandinu þykir um það segir Jón Helgi að almennt séu menn ekki hrifnir af söfnun á veiðiréttindum. „En það hefur ekki verið mikið um um þetta og ekki hægt að tala um þetta sem vandamál.“
smari@bb.is