Fosshótelsmótið í fótbolta þann 25. ágúst á Patreksfirði

Það er alltaf mikil stemmning á Fosshótel mótinu. Mynd: HHF.

Héraðssambandið Hrafna-Flóki (HHF), Íþróttafélagið Hörður á Patreksfirði og Fosshótel bjóða upp á Fosshótelsmótið í knattspyrnu sem verður haldið á Patreksfirði þann 25. ágúst næstkomandi. Leikið verður í 8. – 4. flokki í fimm manna liðum. Það ríkir vinalegur andi á þessu móti og sem dæmi um það þá eru allir krakkar sem vilja spila velkomnir, hvort sem þeir eru í einhverju liði eða ekki. Áætlað er að mótið hefjist klukkan 11:00 og er mótsgjaldið 1.500kr og innheimtist af knattspyrnufélagi þátttakenda. Að leik loknum mun starfsfólk Fosshótels leika á alls oddi á grillunum og bjóða gestum og öðrum upp á pylsur.

Brunaslöngubolti elstu barna er á sínum stað en það er mikil skemmtun og eru foreldrar hvattir til að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi aukaföt því hætta er á að þátttakendur votni vel við þessa iðju. Vesturbyggð bíður svo öllum gestunum í sund á Patreksfirði að móti loknu þannig að allir geti átt ljúfa heimferð.

Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri HHF segir að reynt sé að hafa þetta Vestfjarðamót og hvetur íþróttafélög á svæðinu til að senda lið til þátttöku. „Þetta hefur verið nokkur ár í röð, við höfum reynt að hafa þetta einhverskonar Vestfjarðamót, höfum fengið til okkar Ísfirðinga og Dalamenn. Við myndum gjarnan vilja fá fleiri frá Vestfjörðum, en það hefur ekki enn skilað sér.“ segir Páll.

Páll segir að það skapist mikil stemning í kringum mótið og að brunaslönguboltinn sé ákaflega vinsæll. „Við fáum foreldra til að hjálpa okkur með veitingasölu og annað. Svo höfum við smá gulrót í restina, þá taka elstu krakkarnir svokallaðan brunaslöngubolta þar sem markmenn liðanna nota slöngurnar til að verja, þetta er mjög vinsælt. Fosshótel býður svo upp á mat og verðlaun og eftir mótið fá allir frítt í sund.“ segir Páll.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA