Telur líkur á að ráðningin sé brot á jafnréttislögum

Arna Lára Jónsdóttir.

Á bæjarráðsfundi í Ísafjarðarbæ á mánudaginn 13. Ágúst var ákveðið að fresta ráðningu bæjarstjóra vegna álitamála um það hvort bæjarráð hefði heimild til að samþykkja ráðningu bæjarstjóra eða hvort bæjarstjórn þyrfti að taka þá ákvörðun. Þá komu einnig athugasemdir frá Örnu Láru Jónsdóttur, oddvita Í-listans þar sem hún gagnrýndi vinnulag við ráðningarferlið.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokks svaraði gagnrýni Örnu Láru í aðsendri grein á BB í gær, þar sem hann segir að vissulega hafi hæfasti einstaklingurinn verið ráðinn. Daníel segir ennfremur: „Mér þykir mjög leitt að þetta mál sé komið í þennan farveg. Enn leiðinlegra finnst mér að einhverjir séu farnir að klæða þetta í einhvern kynjabúning. Það á ekki við nein rök að styðjast.“

En hverju svarar Arna Lára þegar þessar sakir eru bornar upp á hana? Er hún einungis að verja vinkonu eða nær gagnrýni hennar yfir það og nær faglegum vinnubrögðum? „Fyrir það fyrsta þá batt ég miklar vonir við það, að þegar ákveðið var að auglýsa bæjarstjórastöðuna og fá til þess ráðningarskrifstofu gegn umtalsverðri þóknun þá væri það fyrirheit um að faglega yrði staðið að þessari ráðningu. Það var ferli sem ég var sátt við og framanaf leit þetta út fyrir að vera mjög faglegt. Staðan var auglýst, fólk sótti um og umsækjendur voru metnir samkvæmt þeim forsendum sem gefnar voru í auglýsingunni og þeim kröfum sem settar voru fram þar. En niðurstaðan var svo bara ekki í samræmi við það,“ segir Arna Lára.

„Ég hef ekki lagt fram neina tillögu um það hver yrði ráðinn eða neitt slíkt,“ segir hún ennfremur. „Ég gerði bara athugasemdir við að þetta væri ekki fagleg ráðning. Því það var auðvitað auglýst eftir ákveðnum kröfum og ákveðinni færni umsækjenda sem ég tel að ekki hafi verið farið eftir og við það geri ég athugasemdir. Og þess vegna var ráðningunni frestað,“ segir Arna Lára í samtali við BB.

Vinnuferlið við ráðningu bæjarstjóra hjá Ísafjarðarbæ var þannig að Capacent sá um að auglýsa stöðuna og taka viðtöl við umsækjendur. Þegar kandidötunum fækkaði var bæjarstjórn boðið að sitja viðtölin við umsækjendur sem Capacent stjórnaði þó og loks voru umsækjendur með kynningu. Á þeirri forsendu segir Daníel að Guðmundi Gunnarssyni hafi verið boðin bæjarstjórastaðan, að þessi tiltekni umsækjandi hafi komið vel út í viðtölunum og kynningu. En hvað segir Arna Lára þegar það er borið upp á hana að hún hafi einungis gert athugasemdir vegna vinskaps við einn umsækjandann?

„Við búum náttúrulega í afskaplega litlum bæ og þekkjumst auðvitað öll. Einn umsækjendanna er auðvitað sameiginlegur vinur okkar Daníels og reyndar fleiri bæjarfulltrúa, þar á meðal Hafdísar Gunnarsdóttur. En málið er fyrst og fremst að það vorum ekki við sem mátum umsækjendur. Það er aðalmálið. Það var Capacent. Það vorum ekki við sem vorum að leggja mat á hæfni og menntun umsækjenda. Það var Capacent. Og það er útfrá því sem ég byggi mína gagnrýni og ég hef ekki verið að tala máli Þórdísar sérstaklega. Alls ekki. Ég hef bara verið að tala máli þeirra umsækjenda sem sóttu um starfið í góðri trú um að faglega verði staðið að ráðningunni,“ svara Arna Lára og segir ennfremur:

„Ég hef hinsvegar bent á að ef kvenkyns umsækjandi um stöðuna ætlaði sér að kæra þá held ég að það séu alveg líkur á því að hún hafi ansi sterkt mál í höndunum. Eftir að hafa talað við Jafnréttisstofu og ráðfært mig við lögfræðing þeirra, þá tel ég líkur á því að þessi ráðning geti verið brot á jafnréttislögum og það bara get ég ekki sætt mig við. Þá verð ég bara að vera á móti.“

Arna Lára segir þó eins og allir aðrir að ef ráðning Guðmundar gangi í gegn þá eigi hún ekki von á öðru en að samstarf þeirra muni ganga vel. „Og ég mun leggja mitt af mörkum eins og aðrir bæjarfulltrúar við að hjálpa honum að komast inn í starfið sitt. Við erum öll með eitt stórt markmið og það er að gera Ísafjarðarbæ vel. Enda erum við ekki að gagnrýna Guðmund sem slíkan heldur erum við að gagnrýna þennan vinnuferil,“ segir Arna Lára að lokum.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA