Nýr bátur á Tálknafirði

Skemmtisigling. Mynd: Julie Gasiglia.

Útgerðarfélagið Stegla ehf hefur keypt og hafið not á nýjum bát. Báturinn fékk nafnið Sæll BA 333 og kom til Tálknafjarðar rétt fyrir Verslunarmannahelgi. Skipstjóri bátsins er Vignir Arnarsson. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir hjá Steglu ehf. segir að við kaupin á þessum bát þá muni fyrirtækið hætta að beita í landi.

„Við erum að hætta að beita í landi og beitum um borð í staðinn. Erum bara að færa okkur í nútímann og uppfæra eins og þarf að gera reglulega í rekstri. Þetta er endurnýjun, beitningarfólkið fer um borð og verða fjórir sem munu beita þar. Á móti kemur þá verður enginn í landi, það voru þar starfsmenn en reyndar ekki allir í fullri stöðu. Þetta er það sem menn hafa verið að fara út í varðandi útgerðir á svona stöðum.“ segir Eyrún.

Eyrún segir að þetta sé ekki nýr bátur, heldur hafi fyrirtækið keypt hann af aðilum sem voru að endurnýja sinn bát. „Þetta er engin viðbót, það er bara verið að endurnýja eldri bát með nýrri tækni. Margir sem hafa farið út í þetta segja að það fiskist betur því beitan er ekki tvífryst. Í staðinn fyrir að beita í landi og frysta svo aftur þá er beitt bara um borð.“ segir Eyrún að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA