Það er af ýmsu að taka í safni Jóns Kr. Ólafssonar, Melódíum Minninganna á Bíldudal sem opið er daglega. Blaðamaður BB kíkti við á dögunum og sagði Jón að aðsóknin í sumar hefði verið með lakasta móti og væri það miður. Talið barst að ferðalagi Jóns til Noregs síðastliðið vor þar sem hann var heiðursgestur sendiherrahjóna á tónleikum.
En hvernig komu þessir tónleikar í Noregi til? „Hann Hjörleifur Valsson, fiðluleikari, segir mér síðastliðið haust að hann vilji ná mér til Oslóar til að mæta til sendiherrahjónanna sem heiðursgests þar og syngja. Það var verið að plana tónleika fyrir allt íslenskt tónlistarfólk í Noregi. Ég var mikið til í þetta svo lengi sem ég myndi vera hress og fór svo þarna út sem sagt í maí síðastliðnum.“ segir Jón Kr.
Jón segir að í bústaði þeirra sendiherrahjóna, þeim Hermanni Ingólfssyni og Höllu Blöndal, hafi verið settir upp þessir rosa flottu tónleikar. „Þar var Hjörleifur undirleikari með fiðluna aðalstjarnan. Ég söng þarna og var langelstur af öllu liðinu. Þetta var eins og hjá kóngafólki, í miðstofunni voru tónleikar þar sem var stór flygill og þar sat fólk, svo í næsta herbergi voru kræsingar á langborði þar sem fólk gat fengið sér að vild. Þetta var virkilega skemmtileg lífsreynsla og mikill heiður.“ segir Jón.
Jón segist upplifa sig svolítið eins og síðasta móhíkanann. „Það er enginn að hafa samband við mig hérna á Bíldudal, það er löngu búið. Það hringir enginn og kemur enginn. Ég fer aðallega á tvo staði til að redda því að ég verði ekki eins og Gísli á Uppsölum. Þótt ég sé fullorðinn þá er ég fullur af krafti, mikill kraftur bæði á sál og öðru. Í dag finnst mér maður vera að hjakka svo mikið innan um meðalmennskulið. Það eru allir svo uppteknir í dag og hafa mikið að gera, en það er bara kjaftæði, það er ekki allt listir og vísindi sem fólk er að gera, það veit ég alveg! En að flytja til Reykjavíkur, nei sko maður getur líka orðið einn þar og einmana, þannig að það er ekki í stöðunni eins og málin standa í dag.“ segir Jón.
Talið berst að því að í sumarbyrjun kom út hljómplata eftir Ingimar Oddsson sem ber nafnið Melódíur minninganna. Platan er tileinkuð Jóni og hans góða starfi í þágu íslenskrar tónlistar. Blaðamaður BB er forvitinn að vita hvernig þetta kom til og hver aðkoma Jóns var að útgáfunni. „Ingimar Oddsson var hér á Bíldudal að vinna í tæp þrjú ár. Hann var mikil menningarsprauta fyrir staðinn. Um leið og hann var kominn hingað var hann farinn að gera alls kyns menningarviðburði. Alflottasti maður sem hefur unnið á Skrímslasafninu til að vinna, því hann hefur svo flotta meðfædda þjónustulund.“ segir Jón.
Að sögn Jóns hafi það svo verið síðastliðið haust sem Ingimar fór að tala um að hann langaði til að syngja klassísk dægurlög inn á plötu. „Mér leist vel á það því hann er með ekta rödd í það, klassíska ballöðurödd. Svo var hann ekki farinn að gera neitt í þessu þannig að ég hvatti hann til að láta verða af þessu. Ég sagði við hann að ég skyldi láta safnið mitt ýta honum á flot. Því þótt ég ætti ekki margar kistur fullar af peningum þá vildi ég gjarnan gera þetta. Svo líður ekki langur tími þar til ég kemst að því að þessi vinna er farin á fullt.
Jón segir að til að gera langa sögu stutta þá fór Ingimar í upptökur í mars síðastliðnum í stúdíó í Mosfellsbæ. „Síðan kemst ég að því að hann ætli að láta plötuna heita Melódíur Minninganna, eftir safninu og tileinkar mér plötuna á þeim forsendum hvað ég er búinn að gera fyrir íslenska tónlist. Þetta er höfðinglegt og þessi plata kemur virkilega flott út og hvet ég alla til að leggja við hlustir“ segir Jón að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is