Smábátasjómenn á sunnanverðum Vestfjörðum hafa sótt sjóinn af hörku í sjómannaverkfallinu, en þeir eru ekki í verkfalli eins og kunnugt er. Oddi hf. hefur keypt hráefni af þeim bátum sem eru að róa frá Tálknafirði og Patreksfirði. Fiskeríið hefur verið með allra besta móti og það, auk harðrar sjósóknar, hefur gert að verkum að allt fiskvinnslufólk Odda hefur haft vinnu í 19 daga af 27 mögulegum vinnudögum frá áramótum. Er það annar veruleiki en flestar fiskvinnslur á landinu búa við í verkfallinu.
Sjómannaverkfallið veldur verulegu raski í byggðalögum allt landið um kring með tekjutapi sjómanna, verkafólks, útgerða og fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn og samfélagslegt tjón verður seint metið til fullnustu. Með sjósókn smábáta á sunnanverðum Vestfjörðum hefur í það minnsta verið hægt að lágmarka það tjón sem landverkafólk verður fyrir.
smari@bb.is