Núna á dögunum kynnti Sjóminjasafnið Ósvör nýjan sjógalla til sögunnar en það eru afskaplega fögur og vel gerð skinnklæði eftir bolvíska fatahönnuðinn Söndru Borg. Gallinn er þó ekki gerður til almenningsnota né heldur að hann lúti reglum nútímahönnunnar heldur sótti hönnuðurinn hugmyndir og innblástur í nýtni og handverkslistir fyrri alda.
Skinnklæðin eru úr mjúku sútuðu sauðskinni en það var Gunnsteinn Björnsson hjá Gestastofu sútarans á Sauðárkróki sem sútaði og litaði sérstaklega. Sandra Borg saumaði svo stakk og brók en gerði þó þannig úr garði að Jóhanni Hannibalssyni safnverði í Ósvör, þætti ekki óþægilegt að vera í gallanum daginn út og daginn inn.
Þetta eru önnur skinnklæðin sem Sandra Borg saumar fyrir Ósvör en þann fyrri gerði hún í höndum og lagðist í mikla rannsóknarvinnu fyrir þann verknað. „Ég var að vinna í Ósvör fyrir mörgum árum og á sama tíma var ég í námi í fatahönnun. Sumarið fyrir lokaverkefnið minn vann ég rannsókn á sjóklæðum fyrri ára fyrir Náttúrustofu Vestfjarða því það var kominn tími á að endurnýja skinnklæðin sem voru þá í Ósvör og það vantaði einhvern til að taka upp sniðin,“ segir Sandra í samtali við BB.
„Ég skoðaði til dæmis sniðin á sjógöllum á Byggðasafninu á Ísafirði, safninu á Hnjótum og Þjóðminjasafninu og ég sá að það eru nokkrar útfærslur til af skinnklæðum. Við vorum ekki viss hvaða útgáfu við ættum að nota en það er smá munur á sniðum á milli landshluta. Engin snið eru þó eins því fólk notaði bara það sem til var. Það finnst mér mikilvægt að hafa í huga við gerð skinnklæða“ segir Sandra. Hún segist einnig hafa lært mikið af rannsókninni um það hvernig var að búa í verbúð. Menn hafi búið þröngt þar en til dæmis bjuggu fjórtán manns eða tvær áhafnir í litlu verbúðinni í Ósvör. „Það má segja að þeir hafi búið í smáhúsi og lifað minimalískum lífstíl! Rannsóknin vakti mig til umhugsunar um nýtni og endurvinnslu og pælingar um hvað þurfi raunverulega í lífinu til að vera sáttur. Þeir sem bjuggu í verbúðum gerðu sér að góðu það sem var,“ segir Sandra ennfremur. Það er áhugavert að hugsa til þessa og bera saman við nútímasamfélag þar sem svo mörgu er hent, í staðinn fyrir að gert sé við það.
„Við völdum að nota svipað snið núna eins og var á upprunalega Ósvarargallanum. Skinnklæðin eru samansett úr sjóstakk og brókum. Brækurnar eru heilar í fótinn og menn fóru í ullarsokkunum ofan í þær. Til þess að sólinn væri ekki alltaf að eyðast upp var svo farið í sjóskó, sem er ferkantað stykki úr sterku leðri, það bundið utan yfir brækurnar. Nýjustu skinnklæðin eru gerð úr sauðskinni en ég gerði smávægilegar breytingar svo klæðin yrðu þægilegri fyrir Jóhann sem er oftast í honum. Til dæmis var oft á tíðum fyrirferðamikill saumur undir ilinni á brókunum en ég sleppti honum því það er ekki þægilegt að ganga á stórum saumi allan daginn,“ segir þessi flinki hönnuður.
Fyrri skinnklæðin sem hún gerði fyrir Ósvör og saumaði í höndunum var stífari og gerð hans var mikil vinna og handverk. Þá þurfti að gata fyrir hvert einasta saumspor og ekki einungis þurfti að sauma saman tvö skinn heldur var venjan að hafa ræmur á milli saumanna sem kallast miðseymi, svo sjór færi ekki á milli. Sandra handsaumaði því saman fjögur lög af skinni á köflum í hverjum saum þegar hún gerði þau klæði. Gallinn sem hún gerði núna var saumaður í vél svo það létti verkið töluvert en hún segir: „Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt, en mér finnst alltaf aðalatriðið að nota sömu hugmyndafræði og var notuð áður; vinna sniðin út frá þeim efnivið sem stendur til boða hverju sinni“ segir þessi flinki hönnuður að lokum.
Sæbjörg
bb@bb.is