Unglingalandsmót UMFÍ var haldið í 21. sinn dagana 2. til 5. ágúst í Þorlákshöfn. Héraðssambandið Hrafnaflóki (HHF) sem starfrækt er á sunnanverðum Vestfjörðum, tefldi fram 18 keppendum í sundi, frjálsum íþróttum, knattspyrnu og körfuknattleik. Það er óhætt að segja að keppendur, foreldrar, systkini og þjálfarar skemmtu sér konunglega og árangurinn hjá keppendunum var góður. Íbúar á svæðinu mega vera stoltir af þessum flottu fulltrúum sambandsins sem vekja eftirtekt á stóra sviðinu.
HHF vann til nokkurra verðlauna á mótinu. Í sundgreinum fengust ein gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun auk þess sem boðsveit HHF vann til silfurverðlauna í 4x50m skriðsundi. Í frjálsum íþróttum vann sambandið til gullverðlauna, fimm silfurverðlauna og tvennra bronsverðlauna auk þess sem boðsveit HHF í 4x100m boðhlaupi 16-17 ára stúlkna sigraði hlaupið.
Dagskráin var þétt skipuð þessa helgi í Þorlákshöfn og gátu allir fundið eitthvað við sitt hæfi og mega skipuleggjendur mótsins eiga heiður skilinn. Ekki skemmdi veðrið fyrir en rigning föstudagsins gleymdist fljótt því sólin sýndi sig vel á laugardag og sunnudag og hélt hópur HHF heim á leið með góðar minningar.
Aron Ingi
aron@bb.is