Á dögunum var eldhús eitt í íbúðarhúsi á Flateyri valið ein af flottustu eldhúsperlum Íslands af mbl.is. Búið er að gera húsið upp á glæsilegan hátt eins og má sjá á myndunum. Notast er við upprunalegan stíl sem skilar sér á fallegan hátt. Talað er um í frétt mbl að húseigendurnir séu smekklegir og að vel hafi tekist til við að blanda fortíðinni saman við nútímann. Einnig vekur litaval eldhúsinnréttingarinnar athygli en hún er svört á lit.
Það sem vekur einna mestu athygli greinarhöfundar mbl er eldhúseyjan sem á sér sögulega skírskotun. Að sögn eigenda hússins áskotnaðist þeim indverskur peningaskápur sem er ansi óvenjulegur og engin smá smíði. Enginn skortur er á skúffum og skápum í honum og nóg af leynihólfum, eins konar völundarhús leynihólfa eins og til orða er tekið í greininni.
Þessi indverski peningaskápur fékkst á sínum tíma í versluninni Fríðu frænku og vegur ekki undir 200 kílóum. Það er ávallt gaman að sjá svona glæsileg heimili og er þetta í takt við það sem víða má sjá í þorpum Vestfjarða, þ.e. gömul hús sem ganga nú í endurnýjun lífdaga með skemmtilegum hætti.
Aron Ingi
aron@bb.is