Það verður mikið fjör í Árneshreppi um Verslunarmannahelgina en þá verður hátíðin Nábrókin haldin í fyrsta skipti og nóg um að vera í tengslum við hana. Það er því um að gera skella sér í Árneshrepp og taka þátt í fjörinu.
Ellen Björg Björnsdóttir er ein skipuleggjanda Nábrókarinnar og hafði fréttamaður BB samband við hana til að forvitnast um þessa mögnuðu hátíð. Dagskráin er svo sannarlega ekki af verri endanum og nóg um að vera: „Á föstudagskvöldinu eru Melasystur með tónleika út í fjárhúsum í Norðurfirði, laugardagurinn verður undirlagður af Mýrarbolta og sveitaballi og svo er varðeldur á sunnudeginum. Allt þetta er undir formerkjum Nábrókarinnar en svo veit ég fyrir víst að það er stanslaust partí á Kaffi Norðurfirði, kökuhlaðborð í Djúpavík, Minja- og handverkshúsið Kört er dásamlegt og sundlaugin er algjör fegurðardrottning“ segir Ellen hress að vanda.
Það stendur heldur ekki á svörum þegar hún er spurð út í upphaf hátíðarinnar: „Það hefur alltaf verið gríðarlega stemmning um Verslunarmannahelgina í Árneshreppi sem byggist fyrst og fremst á því hvað þar býr skemmtilegt fólk. Árið 2013 ákváðum við í ungmennafélaginu Leif Heppna að skella í Mýrarboltamót sem var fyrst og fremst hugsað sem fjölskylduviðburður þar sem börn og fullorðnir geta tekist á og haft gaman. Síðan þá hefur boltinn verið haldinn á hverju ári á tveimur völlum og svona sirka 7-10 lið hvert ár. Í ár verður fyrsta skiptið sem við erum að gæla við að hafa þetta smá svona „hátíð“ heila helgi, bara upp á gamanið“ segir Ellen.
En hvaðan kemur nafn hátíðarinnar, Nábrókin? „Það var óformlegur fundur hjá óformlegri skemmtinefnd Leifs Heppna í vetur og þá langaði okkur í svona nafn eins og önnur bæjarfélög eru með, t.d. Mærudaggar, Franskir dagar, Bryggjuhátíð og fleira. Við hugsuðum vel og lengi, okkur langaði í eitthvað lýsandi fyrir staðinn, söguna þar, eitthvað grípandi og skemmtilegt! Að lokum stóð valið milli tveggja nafna, „Suddinn“ eða „Nábrókin“. Nábrókin sigraði síðan í óformlegum kosningum og virðist vera að landa okkur ágætis athygli“ segir Ellen og hlær.
Ellen segir undirbúninginn ganga mjög vel: „Það er auðvitað í mörg horn að líta en með hjálp góðra manna og kvenna tekst þetta alltaf. Í sveitinni hjálpast allir að, það er bara þannig sem hlutirnir virka og þannig eru þeir líka skemmtilegastir. Það sem á eftir að græja núna er að skella upp mörkunum, fínpússa í kringum vellina, gera leikskipulag þegar öll lið hafa skráð sig og aðra svona minniháttar hluti. Átta lið eru búin að melda sig og ég reikna með að þau sitji öll við saumavélarnar að græja búninga“.
Mikil spenna ríkir fyrir hátíðinni og mikið fjör í kringum hana: „Stemmningin er bara alveg rugluð og allir hvílíkt blýspenntir. Það er ekki annað hægt en að brosa þegar þú sérð heyvagnana og kindakerrurnar nálgast með liðin innanborðs sem eru svo stórkostlega vel skreytt og skemmtileg. Þetta svo mikið 100% hamingja og allir komnir til að skemmta sér. Kannski er ég í einhverju bergmálsherbergi þar sem allir eru bara ótrúlega spenntir og ánægðir og ég heyri ekkert annað. En þið eruð öll velkomin í það herbergi, þar er gott að vera!“ segir Ellen að lokum.
Ég hvet ykkur til að kynna ykkur viðburðinn nánar hér á Facebook.
Dagrún
dagrun@bb.is