Toppslagur þegar Vestri mætir Völsungi á miðvikudaginn

Miðvikudaginn 1. ágúst næstkomandi verður spennandi knattspyrnuleikur þegar Vestri tekur á móti Völsungi klukkan 18:00. Þetta er sannkallaður toppbaráttuslagur en Völsungur situr í efsta sæti deildarinnar með 27 stig, Vestri er í 4. sætinu með 24 stig og gæti því farið í efsta sæti deildarinnar með sigri og hagstæðum úrslitum annarstaðar. Olís ætlar að bjóða á völlinn og hvetja í leiðinni sem flesta til að mæta og styðja Vestra.

Vestri hefur verið á miklu skriði uppá síðkastið og fengið 16 stig af síðustu 18 mögulegum. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra sagði blaðamanni BB að deildin sé mjög jöfn og spennandi. „ Nú erum við komnir í þá stöðu eftir ágætis gengi undanfarnar sex vikur að við erum að blanda okkur í toppbaráttuna og gætum náð efsta liðinu í stigum ef við vinnum Völsung á miðvikudaginn. Það er frábært að vera í þessari stöðu í dag og eiga þennan séns.“ segir Bjarni.

Bjarni segir að mótið sé rúmlega hálfnað, að nóg sé eftir og staðan sé virkilega spennandi. „Ég hef alltaf sagt það að Versunarmannahelgin er miðjan á mótinu, þetta er fjórtandi leikurinn og það eru átta leikir eftir. Ég þakka þessu gengi því að eftir frekar köflótta byrjun þar sem menn voru mikið meiddir settust þeir niður, stilltu sig saman og frá því hafa þeir ekki tapað leik. Það sem er fyrst og fremst að þakka er að þessi hópur er gríðarlega samstilltur, það er aðalstyrkurinn í dag.“ segir Bjarni.

Að sögn Bjarna skiptir stuðningur áhorfenda miklu máli. „Ég vona að bæjarbúar komi og styðji við bakið á okkur og taki þátt í þessari stemningu sem er komin í liðið. Við þiggjum alla þá hjálp sem möguleg er til að komast á toppinn. Við vitum hvað áhorfendur geta gert með því að styðja við drengina.“ segir Bjarni að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA