Það rann upp fyrir mér um daginn. Þegar við fjölskyldan vorum að keyra Djúpið og ég horfði á kjarrið í hlíðunum og velti því fyrir mér hvað það væri sem gerði Teigskóg merkilegri en birkið í Djúpinu. Þá rann það upp fyrir mér, þegar ég eina ferðina enn og í þúsundasta skiptið dáðist að litlu fossunum seytla niður kletta og reyndi að muna hvað væru margir firðir eftir, þá loksins fann ég og skildi að ég gæti aldrei farið frá Vestfjörðum.
Fyrir konu sem er alin upp í Skagafirði þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja hefur það tekið fjögur ár að venjast fjallahjúpnum í Önundarfirði. Þar rifar þó til, þar sem ein áttin býður upp á útsýni í óendanleikann út fjörðinn. Hið sama er ekki að finna í Skutulsfirði og hvað þá Súgandafirði og ég hef stundum hugsað að þar yrði ég endalaust með hálsríg af því að horfa upp, til þess að hafa þó einhverja sýn til að leiða mig út í heiminn.
Yfirleitt hef ég dregið andann léttar þegar ég kem heim í Skagafjörð. Andað og fundist ég laus og frjáls, víðáttan marga tugi kílómetra í margar áttir, allir eðalbornir í kring af því einu að geta séð yfir og séð langt. Aftur á móti fer ég að ringlast þegar keyrt er í hina áttina og Dalasýsla nálgast. Þar eru engin fjöll eins og sonur minn sagði og í Borgarfirðinum líður mér hálfilla, þar er engan fastan punkt að sjá í flatlendinu. Og svo uppgötvaði ég þetta um daginn. Og hefði kannski átt að hafa skilið það fyrr, með því að horfa á tröllvaxinn manninn minn hlaupa léttfættan á eftir kindum um kletta, af því hann er hluti af þeim og sprottinn úr landslaginu. Jafnvel hundruði ára aftur í tímann þar sem forfeður hans og forfeður þeirra hlupu milli skora og steina í 200 metra hæð, jafn fimlega og væru það þúfur. En sama má reyndar segja um mína forfeður og samt skildi ég þetta ekki fyrr. En kannski hefði ég bara átt að skilja það, einfaldlega með því að taka á móti börnunum mínum heim, allt of seint á kvöldin þar sem þau hafa verið að laumast með hinum krökkunum á Flateyri um leynda stíga og hús og kjafta svo í mig fjársjóðunum sem þau hafa fundið en ég má ekki segja hinu fullorðna fólkinu frá. Kannski hefði ekki þurft meira en það. En það rann samt upp fyrir mér þarna um daginn þegar ég horfði á birkið sem skríður frá fjöru og upp að klettum að ég gæti aldrei farið frá Vestfjörðum.
Fjöllin þrengja ekki að mér lengur heldur veita mér öryggi. Eins og veggir sem hægt er að styðja sig við þegar manneskjan riðar og skjól sem hvílir huga og auga þegar sálin þarf ró. Náttúran er ekki hjá okkur hérna, hún er með okkur. Eins og fjölmargir hafa reynt að benda á í virkjanaumræðum og öðru. Með okkur, eins og við erum með henni. Stundum stjórnar hún og stundum við en að mestu leyti eru þetta málamiðlanir þar sem hvor lærir að lifa með hinu. Þegar það hefur einu sinni síast inn hvernig á þá að vera hægt að yfirgefa það?
Mér þykir sem sagt ákaflega vænt um þetta svæði sem við búum á eins og mér þykir ákaflega vænt um fólkið sem býr hérna og kemur hingað. Ég var fengin í starf ritstjóra BB núna í byrjun júní og er stolt af því, sem mun þó aldrei yfirvinna gleðina sem ég finn fyrir í hvert skipti sem ég fæ tölvupóst eða símhringingu frá einhverjum lesanda BB sem langar að senda okkur eða benda mér á fréttaefni.
Ég lít á starf mitt sem þjónustuhlutverk og BB sem miðil allra Vestfirðinga. Miðil sem við eigum að geta notað til að koma okkur, skoðunum okkar, verkum og gjörðum á framfæri og miðil sem speglar okkur og við getum litið í til að finna fyrir stolti eða finna málefnin sem þarf að ræða betur.
Ég er þjóðfræðingur að mennt sem felur í sér að ég hef fengið háskólaþjálfun í að hlusta á fólk, skrifa niður og koma skoðunum þeirra á framfæri án þess að ég leyfi tilfinningum mínum að komast að. Þetta er kannski ástæðan fyrir að sumt háskólafólk virðist hálf tilfinningalaust stundum. Við erum þjálfuð í að skilja okkur sjálf frá viðfangsefninu og meta það á fræðilegan hátt. Sem þýðir með öðrum orðum að stundum gleymir maður sjálfum sér en kann bara að hlusta á og skrifa um hvað aðrir hafa að segja. En þetta er þjálfun sem nýtist mér hérna á BB og við viljum gjarnan koma skoðunum allra á framfæri. Eins fékk ég mjög góða þjálfun hjá Sigurjóni sem stýrði BB skútunni í meira en 30 ár og mig langar að þakka honum kærlega fyrir það.
Kæru lesendur BB. Kærar þakkir fyrir lesa vefinn og kærar þakkir fyrir alla tölvupóstana sem þið sendið okkur. Ég vona innilega að þið haldið áfram að senda okkur ábendingar og fréttaefni og að saman getum við skapað miðil fyrir alla Vestfirði sem við getum verið stolt af, sama hvaða pólitík og skoðanir við aðhyllumst.
Sæbjörg Freyja Gísladóttir
Ritstjóri og húsmóðir, Flateyri.