Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um frumvarp um nýja stofnun sem ætlað er að hafa með höndum umsýslu allra þjóðgarða á Íslandi og annarra friðlýstra svæða auk almennrar náttúruverndar. Samhliða er kallað eftir tillögum um nafn á hina nýju stofnun.
Þrír þjóðgarðar eru á landinu, þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Þeir tveir fyrstnefndu eru reknir sem sjálfstæðar ríkisstofnanir í eigin nafni en sá síðastnefndi heyrir undir Umhverfisstofnun. Önnur friðlýst svæði á landinu eru 111 talsins samkvæmt skrá Umhverfisstofnunar og fer sú stofnun með stjórnun og rekstur þeirra. Í kjölfar aukningar ferðamanna og aukins álags á helstu náttúruperlur landsins hefur aukist þörfin á að vernda svæðin betur gegn ágangi og jafnframt ráðast í frekari uppbyggingu þeirra, bæði efnislegra innviða og landvörslu. Þá hefur einnig verið bent á nauðsyn aukinnar samhæfingar og meiri stuðnings við samskonar verkefni sem unnin eru í dag innan þriggja stofnana.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðgarðarnir þrír, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, verði sameinuð í eina stofnun sem og önnur friðlýst svæði landsins, þ.m.t. verndarsvæði Mývatns og Laxár og Breiðafjörður. Þá verði undirbúningur friðlýsinga, eftirlit á friðlýstum svæðum og stjórnun þeirra meðal verkefna hinnar nýju stofnunar.
Helstu markmið með stofnuninni er að efla náttúruverndarsvæði með einföldun stjórnkerfis, aukinni skilvirkni og samnýtingu þekkingar. Með yfirsýn yfir málefni friðlýstra svæða á einum stað skapast breiður vettvangur til heildstæðrar stefnumótunar til lengri tíma. Þá leiðir aukin samlegð til þess að fjármunir eru nýttir með sem hagkvæmustum hætti. Loks fengist með stofnuninni sameiginleg ásýnd sem býður upp á samræmda kynningu náttúruverndarsvæða.
Í skipulagi og fyrirkomulagi stjórnunar stofnunarinnar er lögð áhersla á valddreifingu og aðkomu sveitarfélaga og samtaka almennings að stjórnun og stefnumótun svæðanna sem undir hana heyra.
Í þeim drögum að frumvarpi sem hér eru kynnt er hin nýja stofnun nefnd „Þjóðgarðastofnun“ en samhliða kynningu frumvarpsins er óskað eftir tillögum um heiti á stofnunina.
Frumvarpsdrögin byggja í megindráttum á vinnu starfshóps umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem skilaði tillögum sínum til ráðherra í febrúar síðastliðnum. Í starfshópnum áttu sæti, auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar frá þjóðgörðunum, Umhverfisstofnun og sveitarfélögum.
Umsögnum um frumvarpsdrögin og tillögum að nafni stofnunarinnar skal skilað í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 5. september næstkomandi. Frumvarpsdrögin má lesa hér.
Sæbjörg
bb@bb.is