Verkefni grunnskólanema á Drangsnesi eitt af tíu bestu í European Heritage Makers Week

Magndís tekur á móti verðlaununum ásamt Karitas H. Gunnarsdóttur, skrifstofustjóra menningarmála hjá Mennta- og menningamálaráðuneytinu, og Þór Hjaltalín, sviðsstjóra minjavarðasviðs hjá Minjastofnun Íslands. Mynd: Minjastofnun Íslands.

Núna í vor stóð Minjastofnun Íslands fyrir Menningarminjakeppni grunnskólanna í tilefni af Menningararfsári Evrópu 2018. Menningjarminjakeppnin er hluti af stærri viðburði á vegum Evrópuráðsins, European Heritage Makers Week. Úrslit Menningarminjakeppninnar voru tilkynnt núna í júlí og var það Magndís Hugrún Valgeirsdóttir nemandi í 6. Bekk í Grunnskólanum á Drangsnesi sem sigraði. Vinningsverkefni hennar er þriggja mynda vatnslitasería sem sýnir ólíka þætti tilverunnar á hvalveiðistöðinni á Strákatanga við Steingrímsfjörð þegar hún var starfrækt á sautjándu öld. Það segir í rökstuðningi dómnefndar að á myndunum sjáist að Magndís hafi kynnt sér efnið vel og setji það fram með frumlegum og skipulögðum hætti. Í þriðja sæti var einnig nemandi Grunnskólans á Drangsnesi, hún Guðbjörg Ósk Halldórsdóttir í 4. bekk sem samdi örljóð um það sem hún hafði lært á Strákatanga.

 

Ein af verðlauna myndunum: Myndin sýnir hafið í kringum Strákatanga, varðmennirnir stóðu og horfðu út á Steingrímsfjörð, þeir létu hina hvalveiðimennina vita þegar hvalir sáust og þá fóru átta menn af stað í lítinn bát til þess að veiða hvalina. Mynd: Minjastofnun Íslands.

Öll verkefnin sem bárust í Menningarminjakeppnina voru svo send út til að taka þátt í stærra verkefninu, European Heritage Makers Week, en í hana bárust alls 82 verkefni frá átta löndum. Nú hafa verið valin tíu bestu verkefnin af þeim sem tóku þátt þar og er verkefni Magndísar Hugrúnar Valgeirsdóttur. Magndís fær að launum ferð til Strassborgar í nóvember þar sem unga fólkið á bak við verkefnin tíu munu hittast, fara saman í skoðunarferðir og vonandi skapa saman nýjar sögur.

 

Dagrún 

dagrun@bb.is

 

DEILA