Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) er á leið á unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn dagana 2. til 5. ágúst næstkomandi. Að sögn Sigríðar Láru Gunnlaugsdóttir er ekki enn vitað hversu margir frá sambandinu munu taka þátt en það mun skýrast á næstu dögum. „Það eru ekki margir enn búnir að skrá sig, fólk virðist vera að bíða og sjá hvernig veðrið verður, það virðist vera búið að fá nóg af rigningu. En við stefnum að því að fara með hóp þangað og ætlum að vera með tjald, grill og félagsanda. Ég veit að það verður körfuboltalið frá stelpum og einhver fótboltalið frá strákum. Svo fara krakkarnir oft í eitthvað fleira eins og frjálsar eða sund þegar þau eru komin á staðinn.“ segir Sigríður.
Sigríður segir að HSV hafi sent hóp á landsmót UMFÍ sem fram fór á Sauðarkróki 12. til 15. júlí síðastliðinn og að vel hafi gengið. „Það var mikil stemning þar og þeir sem fóru voru mjög ánægðir þótt veðrið hefði mátt vera betra. Eitt Boccia lið lenti í 3. sæti, það voru einu verðlaunin sem unnið var til að ég held hvað okkur varðar en það skemmtu sér allir konunglega.“ segir Sigríður að lokum.
Þess má geta að Vestfirska hljómsveitin Between Mountains mun spila á unglingalandsmótinu, en hljómsveitin spilar föstudagskvöldið 3. ágúst. Einnig mun tónlistarmaðurinn Þormóður Eiríksson sem BB fjallaði um á dögunum spila með Kóp Bois á kvöldvöku á mótinu á sunnudagskvöldinu ásamt Herra Hnetusmjöri.
Aron Ingi
aron@bb.is