Raggagarðurinn í Súðavík fékk nýlega viðurkenningu frá tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn. Viðurkenningin nefnist Rós í hnappagatið og tekur tímaritið alltaf eitthvað verkefni fyrir hverju sinni. Í grein tímaritsins um verðlaunin er tekið fram hvernig á þennan undraverða hátt allt hefur tekist er varðar garðinn, hvort tilviljun hafi ráðið því eða eitthvað annað.
Vilborg Arnarsdóttir, framkvæmdastjóri garðsins sagði blaðamanni BB einnig að Pokasjóður sé að láta taka upp heimildamynd um hvaða verkefni sem hann hefur styrkt hingað til og heimsóttu þau Raggagarð nýlega vegna þessa. „Ég veit ekki hvenær eða hvar þetta verður sýnt. Pokasjóður er hættur að styrkja svona verkefni, eru meira núna í mannúðarverkefnum í dag. En þeir voru fyrstir til að styrkja Raggagarðinn og hafa styrkt hann um 6,5 milljónir í heildina.“ segir Vilborg.
Vilborg segir að það hafi verið ótrúlega mikið að gera í sumar þrátt fyrir veðurfarið. „Það eru alltaf fleiri sem vita af þessum garði, en þar sem það koma engar tekjur sem slíkar þá erum við ekki að auglýsa eitt eða neitt. Allur peningur fer í að framkvæma og lagfæra. Hluti af rekaviðsskóginum er kominn upp og verður vonandi kláraður á næsta ári, ef við fáum rekavið einhversstaðar frá. Það er verið að sýna sérkenni stranda, þetta er hluti af tilvísun í Vestfirði á margan hátt, eins og holugrjótið til að mynda.“ segir Vilborg.
Vilborg Arnarsdóttir segir að verkefnið sé þungt og að það væri ekki mögulegt að standa í þessu ef ekki væri fyrir hjálp vinnuskóla sveitarfélaganna í kring. „Ég er flutt en við komum yfirleitt í 3 vikur til að vinna í garðinum og það er gríðarlegur styrkur að fá vinnuskólana frá sveitarfélögunum til að hjálpa okkur, annars væri ekki hægt að standa í þessu. Þetta er afrek Vestfirðinga að þetta hafi verið hægt og við eigum að vera stolt af þessu, frábært í alla staði. Það er enginn garður til á landinu sem er byggður upp með þessum hætti.“ segir Vilborg að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is