Skrímslasetrið á Bíldudal er áhugaverður staður að heimsækja. Þar er haldið utan um sögur sem lifað hafa með þjóðinni í aldanna rás. Boðið er upp á stórskemmtilega skrímslasýningu sem vekur lukku bæði hjá börnum og fullorðnum, en Arnarfjörður er einmitt þekkt skrímslasvæði. Þetta sumarið reka staðinn Gunnar Smári Jóhannesson og Sarah Maria Yasdani og hafa þau heldur betur lífgað upp á bæinn með vinalegu viðmóti og skemmtilegum viðburðum. Sýndu þau til að mynda marga leiki á heimsmeistaramótinu fyrr í sumar og hafa boðið upp á karaokee kvöld og miðsumarspartý. Auk þess var fatamarkaður fyrr í sumar sem vakti mikla lukku.
Gunnar Smári sagði blaðamanni BB að reksturinn hafi gengið vel í sumar, en þau hafi tekið við honum um miðjan maí. “Það hefur gengið rosalega vel í sumar. Sarah var búin að vinna hér áður sem þjónustustúlka þannig að hún vissi smá út í hvað hún var að fara. Erum búin að vinna baki brotnu og skemmta okkur konunglega við að sjá um þetta. Erum búin að halda marga viðburði sem Bíldælingar og fólk úr sveitinni hefur verið duglegt að mæta á. Erum búin að fá matarbloggara frá Morgunblaðinu sem segir að bestu íslensku vöfflurnar séu sænskar, sem hún Sarah gerir.“ segir Gunnar Smári.
Gunnar Smári segir auðvitað sé líka mikið um ferðamenn. „Þetta er mikið bland, bæði heimamenn og ferðamenn, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn hafa verið áberandi í sumar. Svo sýndum við HM og þá mættu ansi margir. Við verðum með reksturinn fram í byrjun september.“ segir Gunnar Smári að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is