Býst við að fækka sauðfé í haust

Fé. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Ásgeir Sveinsson, sauðfjárbóndi á Innri Múla á Barðaströnd segir að staðan í sauðfjárbúskap sé ansi svört. Ásgeir sagði í samtali við blaðamann BB að afurðaverð sé í sögulegu lágmarki og að bændur séu uggandi yfir stöðunni. Sláturhúsin hafa gefið það út að þau muni ekki taka við fleiri lömbum en áður frá hverjum bónda. Hann segir að vorið hafi verið mjög erfitt sem og sumarið og því sé minna af heyi sem geri ákvörðunina örlítið auðveldari, en þau voru með 940 kindur síðastliðinn vetur.

„Þetta er eitthvað misskipt, því maður verður ekki var við að neytendur njóti góðs af lágu verði í búðum, manni sýnist það frekar hækka ef eitthvað er. Þannig að millilaðilinn virðist leggja svona mikið á þetta, allavega er einhver að græða. Ef þetta gefur ekkert af sér þá þarf þarf að minnka við sig og vinna eitthvað með þessu. Maður hefur heyrt víða að bændur séu að fækka fé eða jafnvel að hætta. Það er engin nýliðun í þessu, jarðir eru dýrar og þessi rekstur er ekki arðbær. Þú finnur kannski ekki mikið fyrir þessu ef þú ert með annað með eins og ferðamennsku eða hestamennsku, en þetta er verst fyrir þá sem eru eingöngu í sauðfénu.“ segir Ásgeir.

Ásgeir segist ekki hafa heyrt að farið verði í neinar aðgerðir varðandi þetta og að hann þurfi að taka ákvörðun í haust varðandi framhaldið. „Sláturhafar eru þegar búnir að birta verðskrá og það er sama verð og í fyrra, ég veit ekki hvað er hægt að gera. En þetta er sérstakst því birgðastaða sláturhúsanna er engin, þar eru tómar geymslur og kjötið selst og er selt dýrt í búðunum. Við erum að fá kannski þriðjung af því ef það er svo gott, á sama tíma erum við að horfa á eitt læri í búðinni á sjö til áttaþúsund krónur, það er það sama og við fáum fyrir heilan skrokk.“ segir Ásgeir.

Ásgeir er svartsýnn á stöðuna og segir að samningastaða bænda sé ansi veik. „Allar aðgerðir hjá okkur eru frekar veikar, ef við hótum að senda ekki lömbin eða að fara í verkfall þá stöndum við frammi fyrir að þurfa að ala 1.400 lömb yfir veturinn sem er ekki góð staða. Svo má líka benda á að þetta er slæm staða út frá byggðasjónarmiði, það er gott að hafa okkur bændurna í sveitunum ef eitthvað kemur upp á, þetta eru náttúrulega fyrirtæki á hverjum bæ.“ segir Ásgeir að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA