Ískalk á Bíldudal hefur um árabil útvegað starfsfólki sínu húsnæði

Nýja íbúðarhúsnæði Ískalks á Bíldudal. Mynd: Einar Sveinn Ólafsson.

Íslenska kalkþörungafélagið gefur sent frá sér fréttatilkynningu þess efnis að í kjölfar vígslu á nýju átta íbúða húsnæði, sem Íslenska kalkþörungafélagið ehf. lét reisa fyrir starfsfólk sitt á Bíldudal og vígt var með opnu húsi til kynningar fyrir almenning í síðustu viku, hefur Alþýðusamband Íslands varað við hættu sem starfsfólki kann að vera búin sem býr í húsnæði í eigu vinnuveitanda síns. Telur ASÍ að starfsfólk sem býr í slíku húsnæði „kvarti síður ef réttindi þeirra eru brotin. Mikilvægt sé [því] að gera heildarendurskoðun á húsaleigulögum og bæta réttarstöðu leigjenda,“ eins og segir í frétt Ríkisútvarpsins 15. júlí þar sem haft var eftir deildarstjóra lögfræðideildar ASÍ.

Af þessu tilefni vill Kalkþörungafélagið taka fram að félagið hefur um langt árabil bæði aðstoðað starfsfólk við að finna sér húsnæði á atvinnusvæðinu og leigt starfsfólki húsnæði í eigu félagsins án þess að nokkurt einasta tilvik sem ASÍ nefnir í þessu sambandi hafi komið upp, hvorki með ágreiningi milli starfsmanna og fyrirtækisins eða tilkynningum starfsmanna til stéttarfélaga. Félagið hefur aukin heldur aldrei brotið á réttindum starfsmanna sinna.

Vaxandi umsvif í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum hefur á síðustu árum verið langt umfram framboð á vinnuafli og tiltæku húsnæði á svæðinu, hvort sem er til leigu eða kaups. Til að manna starfsemi verksmiðjunnar á Bíldudal hefur félagið í vaxandi mæli orðið að leita starfsfólks utan svæðisins, bæði í öðrum landsfjórðungum og erlendis. Nær ómögulegt hefur reynst að ráða aðkomufólk nema að því tilskyldu að fyrirtækið útvegaði húsnæði. Það hefur fyrirtækið gert með kaupum á tveimur íbúðarhúsum á Bíldudal auk þess sem stundum hefur tekist að taka húsnæði á skammtímaleigu. Í þessum tilvikum hafa starfsmenn leigt af félaginu og í sumum tilvikum hafa þeir síðan keypt eigið húsnæði þegar tækifæri hefur gefist og ákvörðun verið tekin að fjölskylda viðkomandi kæmi einnig vestur til að setjast að í sveitarfélaginu.

Nýja átta íbúða húsnæðið sem Kalkþörungafélagið tók í notkun í síðustu viku er það fyrsta sem byggt hefur verið á Bíldudal í tæpa þrjá áratugi. Skammur byggingartími og nær milliliðalaus viðskipti við framleiðanda eru meginástæða hagkvæms byggingarkostnaðar og þess leiguverðs sem félagið býður starfsfólki sem leigja þarf af félaginu. Það er aðallega erlent starfsfólk sem hefur engin tengsl hér á landi. Við þessar aðstæður býður félagið hagkvæmt leiguverð sem er langt undir því verði sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu. Það er meðal annars ástæða þess að félaginu helst nokkuð vel á góðu starfsfólki sem við viljum ekki missa. Eins og staðan er á húsnæðismarkaði á sunnanverðum Vestfjörðum eru íbúðir félagsins eðli málsins samkvæmt eingöngu ætlaðar starfsfólki félagsins enda ekki ætlunin að gerast leigusali á almennum markaði. Starfsmenn sem búa í því húsnæði félagsins og hætta störfum flytjast því úr húsnæðinu að loknum uppsagnarfresti. Ákvæðið er skýrt í ráðningarssamningi og aldei hafa risið deilur um ákvæðið frá því að starfsemin hófst 2007.

Þrátt fyrir að aðstandendur Kalkþörungafélagsins séu afar stoltir af byggingarframtakinu, ekki síst því að geta loks gefið starfsfólki sínu kost á nýjum og glæsilegum íbúðum á sanngjörnum kjörum, skal því haldið til haga að það var af brýnni neyð sem ráðist var í framkvæmdirnar. Ákjósanlegra væri að sveitarfélögin réðust í framkvæmdir sem þessar þar sem mikill skortur myndast á íbúðarhúsnæði samfara vaxandi atvinnustarfsemi og þörf fyrir fleira starfsfólk. Sem dæmi um þá leið má nefna Grýtubakkahrepp sem réðst í byggingu íbúða á kostnað sveitarfélagsins af þessum ástæðum. Stefna Kalkþörungafélagsins er, líkt og Grýtubakahrepps, að selja íbúðir félagsins á almennum markaði þegar og ef aðstæður skapast sem réttlæta slíka sölu.

ASÍ og verkalýðsfélög víða um land hafa á undanförnum misserum bent á dæmi þess að fyrirtæki brjóti á réttindum starfsfólks, ekki síst erlendu, bæði í formi launa og í húsnæðismálum. Á þetta er einnig bent í ágætri blaðagrein framkvæmdastjóra IKEA í dag. Það er ósk Íslenska kalkþörungafélagsins að fjölmiðlar einbeiti sér fremur að þeim aðilum á vinnumarkaðnum sem uppvísir eru að lögbrotum og okri á starfsfólki sínu í stað þess að tengja fréttaflutning sinn, m.a. með myndrænum hætti, fyrirtækjum sem hafa aldrei gerst brotleg, t.d. Íslenska kalkþörungafélaginu.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA