Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti nýlega að óska eftir því að Vegagerðin taki tillögu norsku Verkfræðistofunnar Multiconsult til skoðunar varðandi vegagerð í Gufudalssveit. Ingibörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri hreppsins sagði blaðamanni BB að þetta muni tefja afgreiðslu málið örlítið en að vinnan gangi að öðru leyti snuðrulaust fyrir sig og að engin togstreita sé í þessu vinnuferli. „Við héldum fund með Vegagerðinni þar sem báðir aðilar gerðu sér grein fyrir því að með skýrslunni frá Multiconsult þá er okkur ekki annað fært en að taka þá leið sem lögð er fram þar til skoðunar. Við höfum verið að útbúa rökstuðning fyrir því að fara svokallaða Þ-H leið sem tekin hafði verið ákvörðun um, en í matinu er bent á aðra leið, svokallaða R-leið. Hún er svipuð og Þ-H leiðin varðandi kostnað og lengd á þeim tíma sem tæki að leggja þann veg og því ber okkur að skoða þetta. Við munum kynna þessa R-leið fljótlega og við þurfum ekkert að brjóta upp það vinnuferli sem við erum í, við tökum bara smá skref tilbaka í vinnuferlinu og tökum þessa leið inn.“
Ingibjörg segir að eftir kynningu á R-leiðinni þá muni verða tekin ákvörðun hvort farið verði þá leið eða hvort þau haldi sig við svokallaða Þ-H leið. „Við sjáum fyrir okkur að í október verðum við komin með grunngögn um R-leiðina og getum tekið ákvörðun um málið, hvort við förum þá leið eða höldum okkur við Þ-H leiðina.“ segir Ingibjörg að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is