Hvassviðri eða stormur fram á morgundaginn

Á Vestfjörðum er vaxandi suðaustanátt og upp úr hádegi má búast við 15-23 m/s og rigningu með köflum. Heldur áfram að bæta í vind og verða 18-25 m/s í nótt og á morgun, en dregur úr vindi síðdegis. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig. Í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að næstu tvo sólarhringa gangi á með sunnan- og suðaustanhvassviðri eða -stormi, jafnvel roki við vesturströndina um tíma á morgun. Vætusamt verður á sunnanverðu landinu, en þurrt að kalla fyrir norðan. Dregur síðan talsvert úr vindi og úrkomu og kólnar og má þá vænta élja á vestanverðu landinu. Um helgina hvessir svo af suðvestri, hlýnar og fer aftur að rigna.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi, hálkublettir eru norður í Árneshrepp.

annska@bb.is

DEILA