Tóku samtals 9,5 tonn af rusli

Fjöruruslið er ekki það léttasta, þetta er magnaður hópur sem fór og hreinsaði. Mynd: Hreinni Hornsstrandir.

Það var vaskur hópur sem lagði leið sína í Bolungarvík á Hornströndum 22.-24. júní síðastliðinn til að hreinsa fjöruna. Alls fóru 36 manns þá og hópurinn stóð sig með afbrigðum vel því ekki er þessi vinna auðveld og margir þungir hlutir sem þarf að færa til og sumir jafnvel grafnir töluvert ofan í sandinn eða fastir við rekavið. Vegna verkefna varðskipsins þá var ekki hægt að taka ruslið með í þeirri ferð en hópurinn safnaði því saman í hrúgur og skildu eftir í fjörunni.

„Núna á helginni fórum við aftur, 11 talsins með varðskipinu Þór,“ sagði Gauti Geirsson einn af forsprökkum verkefnisins í samtali við BB. Við fórum á föstudagskvöldi og til baka aftur á laugardagskvöldi. Þetta var hörkuduglegur hópur sem vann baki brotnu í 9 tíma samfleytt við að tína ruslið í tuðrurnar frá Landhelgisgæslunni. Áhöfnin á Þór stóð sig líka mjög vel því aðstæður í fjörunni voru nokkuð krefjandi.“

Alls safnaði hópurinn saman 9,5 tonnum af rusli og samtals hafa safnast 28 tonn í þeim 5 ferðum sem Hreinni Hornstrandir hafa farið og hreinsað. Fyrirtækin sem hafa styrkt verkefnið eru Landhelgisgæsla Íslands, Ísafjarðarbær, Reimar Vilmundarson, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Umhverfisstofnun, Borea Adventures Iceland, Gámaþjónusta Vestfjarða, VesturVerk, Aurora Arktika, Hótel Ísafjörður og Vesturferðir. Það er þó nóg eftir enn og vonandi taka sem flestir höndum saman í framtíðinni til að halda hafinu og fjörum hreinum. Meðfylgjandi myndir eru frá Hreinni Hornstrandir hópnum.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA