Fimm fiskar hafa veiðst í net eftir að götin fundust

Slysaslepping á eldislaxi varð úr sjókví Fjarðalax í Tálknafirði í byrjun mánaðar eins og sagt hefur verið frá. Orsök tjóns og umfang slysasleppingar liggja ekki fyrir en 5 fiskar úr sjókvínni hafa veiðst í net eftir atvikið fram til þessa segir í tilkynningu frá Mast. Arnarlax tilkynnti atvikið strax til Matvælastofnunnar og Fiskistofu og umsvifalaust voru sett út rekanet til að freista þess að ná fiski sem gat hafa sloppið. Samkvæmt Fiskistofu munu netin vera úti svo lengi sem þau telja þörf á því og stofnunin ætlar einnig að kanna hvort fiskur hafi leitað uppí nærliggjandi ár.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Fjarðalaxi um fisk utan kvíar og gat á nótarpoka sjókvíar fyrirtækisins að Laugardal í Tálknafirði að morgni 6. júlí. Við eftirlit Matvælastofnunar 9. júlí sl. var farið yfir atburðarás atviksins, búnað og viðbrögð fyrirtækisins. Ljóst er að slysaslepping hefur átt sér stað en umfang sleppingar er óljóst. Meðalþyngd fiska í umræddri kví er 3,5 kg og voru um 150.000 fiskar í kvínni. Fiskistofa stjórnar veiðum vegna slysasleppinga og hafa 5 fiskar veiðst í net eftir slysasleppinguna. Viðbrögð fyrirtækisins voru skv. skráðum verkferlum þess. Gert var við göt eftir að þau uppgötvuðust og viðbragðsáætlun vegna slysasleppingar virkjuð.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA