Á skíðasvæði ísafjarðarbæjar hefur gengið illa að opna brekkur í Tungudal og brugðu starfsmenn á það ráð á laugardag að fara 20 ár aftur í tímann og renna niður frá Gullhól á Seljalandsdal. Brekka sú er frekar löng og hentar öllum aldri að sögn Hlyns Kristinssonar forstöðumanns skíðasvæðisins. Þá voru yngstu iðkendurnir ásamt einhverjum úr eldri hópum SFÍ dregnir upp á sleðum og troðara og haldnar þar tvær æfingar. Það var vel mætt á svæðið og fengu allir kakó eftir að búið var að skíða og milli ferða. Hlynur segir starfsmenn skíðasvæðis hafa verið mjög ánægða með hvernig til tókst og ekki annað að sjá en allir hafi farið sáttir heim með bros á vör eftir þetta ævintýri.

Á skíðagöngusvæðinu á Seljalandsdal var nóg um að vera alla helgina þar sem kvennanámskeiðið „Bara ég og stelpurnar“ fór fram aðra helgina í röð. Veður var gott á svæðinu og margir sem sóttu dalinn sem skartaði sínu fegursta.

Troðarinn hafði í nægu að snúast
Það er alltaf gott að fá sér hressingu að lokinni æfingu

annska@bb.is

DEILA