Vaskir kennarar 4. til 7. bekkjar á Ísafirði hafa komið á fót svokallaðari Snillingakeppni. Hún felst í því að börnin lesa ákveðnar bækur og taka síðan þátt í keppni í skólanum og svara spurningum upp úr bókunum. Keppni af þessu tagi hófst á Akranesi en á næsta skólaári verður hún haldin bæði fyrir og eftir áramót í GÍ.
„Keppnin er í ætt við Útsvar og verkefnið snýst um að auka áhuga krakkanna á lestri,“ segir Guðný Stefanía Stefánsdóttir, umsjónarkennari 5. bekkjar í samtali við BB. „Við viljum meina að þessi keppni hjálpi mörgum við að lesa meira og verða þar af leiðandi betri í lestri. Fyrirkomulagið er þannig að við leyfðum hverjum árgangi að velja tvær bækur og þær verða lesnar fyrir áramót og núna í sumar. Það er nauðsynlegt fyrir krakka að lesa yfir sumarið. Ef þau lesa ekki neitt þá standa þau í stað og þurfa að byrja á því að hausti að ná lestrinum upp,“ segir Guðný Stefanía.
Guðný Stefanía er íþróttakennari að mennt og segist stundum líkja lestri við sund. Ef barn les aðeins einu sinni í viku yfir veturinn þá verður það tæplega orðið læst að vori. Þess vegna er mikilvægt að lesa líka í fríum því æfingin skapar meistarann og það er mikilvægt að æfa sig í öllu.
Foreldar barna í 4.-7. bekk fengu sendan bókalista í vor og það er ekki úr vegi að hvetja bæði þau og foreldra til lesturs, og hver veit nema börnin hafi líka áhuga á að lesa stöku fréttir á bb.is
Sæbjörg
bb@bb.is