Mikilvægur sigur í 1. deildinni

Nökkvi Harðarson fyrirliði Vestra í baráttunni gegn Terrence Motley á Selfossi. Ljósmynd: Jóhannes Eiríksson.

Vestri sigraði FSu á Selfossi um helgina, 70-80. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur í baráttunni um laust sæti í úrslitakeppninni. Með sigrinum standa lið Vestra og Hamars jöfn að stigum í 5.-6. sæti með 14 stig. Þessi tvö lið mætast svo á Jakanum í næstu umferð, föstudaginn 17. febrúar kl. 19:15. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess leiks því innbyrðis viðureignir Vestra og Hamars geta vegið þungt þegar upp er staðið.

Vestri lék tvo leiki í körfunni um helgina því á föstudagskvöld var tekið á móti Fjölni í íþróttahúsinu á Torfnesi. Skemmst er frá því að segja að gestirnir fóru með sigur af hólmi 68-86. Afar góður þriðji leikhluti gestanna skar í raun út um leikinn eftir jafnan fyrri hálfleik. Lið Vestra var hálf vængbrotið í leiknum, Yima Chia-Kur varla stiginn upp úr veikindum auk þess sem Adam Smári Ólafsson var meiddur og Magnús Breki Þórðarson var kallaður heim í til Þórs í Þorlákshöfn vegna meiðsla þar á bæ.

smari@bb.is

DEILA