Eftir hörkuspennandi fimmhrinu leik Vestrakvenna á laugardaginn í blaki gegn Fylkiskonum, vannst sætur sigur. Fyrsta hrinan var æsispennandi og endaði í 25-27 fyrir Fylki en Vestri girti sig heldur betur í brók í næstu tveimur og vann þær með 25-17 og 25-23, sigur í fjórðu hrinu féll svo Fylki í skaut 18-25 en í oddahrinu náði Vestri yfirhöndinni naumlega og sigraði 15-13.
Vestri er því enn í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig en á tvo leiki til góða. Afturelding B og HK B eru að því er virðist geirnegld í fyrsta og annað sætið með 25 og 24 stig en aðeins sex stig skilja að liðin í þriðja – áttunda sæti og þar getur allt gerst.
Ágæt mæting var á bekkina en stuðningur heimamanna er ómetanlegur á leikjum sem þessum. Næstu helgi á Vestri útileiki við Stjörnuna B og ÍK en laugardaginn 25. febrúar mætir topplið deildarinnar Afturelding B og þá er eins gott að vera búin að taka lýsið.
bryndis@bb.is