Vilja setja sundlaugarmál í íbúakosningu

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Í-listinn vill vinna að því að íbúar Ísafjarðarbæjar geti með rafrænni íbúakosningu tekið þátt í ákvörðun um hvort farið verði í endurbyggingu Sundhallar Ísafjarðar. Fram að kosningu ætlar bærinn að kynna betur vinningstillögu Kanon arkitekta sem kunngjörð var í síðustu viku og hvaða atriði í tillögunni mætti gera með öðrum hætti.  Einnig þurfi að liggja fyrir hver annar kostnaður verður vegna Sundahallarinnar sem ekki tengjast vinningstillögunni með beinum hætti. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, skrifar á Facebook að kostnaður við viðhald á ytra byrði Sundhallarinnar sé dæmi um þetta. „Viðhald á ytra byrði þarf hvort eð er að fara fram ef ekki á að rífa Sundhöllina. Það virðist nokkuð ljóst að almenningur vilji alls ekki rífa þessa merkilega byggingu,“ skrifar Gísli Halldór.

Þá liggur fyrir að skoða þarf kostnað við endurnýjun á laugarbúnaði og bæjarstjórinn segir það ótvírætt að annaðhvort þurfi að enurnýja laugarbúnað eða loka sundlauginni.

Gísli Halldór segir að mikill þrýstingur sé á Ísafjarðarbæ að finna framtíðarhúsnæði fyrir líkamsræktaraðstöðu og þriðja hæð Sundhallarinnar gefur vissulega möguleika á því en þá þurfi að útfæra hvort það verkefni verði selt út í heilu lagi til einkaaðila eða hvort bærinn taki með einhverjum hætti þátt í því.

„Ef ekki á að rífa Sundhöllina og ekki á heldur að endurnýja laugarbúnað og búningsklefa þá þarf að finna byggingunni annað hlutverk og gera breytingar til að aðlaga hana að því hlutverki. Það mun áreiðanlega líka kosta mikinn pening,“ skrifar bæjarstjórinn að lokum.

smari@bb.is

DEILA