Stjórn Landssambands veiðifélaga lýsir furðu sinni yfir hugmyndum Hafrannssóknarstofnunar um að hefja stórfellt sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi. Áform stofnunarinnar sem fram kom í fréttatilkynningu um 3000 þúsund tonna laxeldi eiga ekkert skylt við tilraunir og eru aðeins til þess fallnar að stíga óheillaskref í þá átt að opna Ísafjarðardjúp fyrir þauleldi á frjóum norskum laxi. Landssambandið telur að þauleldi Hafrannsóknarstofnunar og mögulegra samstarfsaðila á laxi í sjó af þeirri stærðargráðu sem tilkynnt hefur verið falli ótvírætt undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og skuli því sæta umhverfismati líkt og aðrar ámóta framkvæmdir.
Landssambandið bendir á að Skipulagsstofnun hefur þegar gefið út álit um laxeldi í Ísafjarðardjúpi og fram hjá niðurstöðu stofnunarinnar verður ekki litið þótt hér sé leitast við að bregða sauðagæru yfir úlfinn þegar enn og aftur er ráðist með sjókvíaeldi gegn íslenskri náttúru. Á öllu þessu máli eru fingraför stjórnmálanna og trúverðugleiki Hafrannsóknarstofnunarinn sem sjálfstæðrar vísindastofnunar því í húfi. Stofnkostnaður við þessa svokölluðu tilraun í Ísafjarðardjúpi mun hlaupa á milljörðum króna og allar upplýsingar um áhrif eldis á náttúruna sem þarna skal afla liggja nú þegar fyrir. Nær væri að fylgjast með áhrifum sjókvíeldisins á suðurfjörðum Vestfjarða.
Landssamband veiðifélaga mun beita öllum tiltækum ráðum til að stöðva þennan ógeðfellda blekkingarleik stjórnvalda og fiskeldismanna.
Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga