Óboðleg vinnubrögð Hafró

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs í Ísafjarðarbæ.

Hafrannsóknarstofnun Íslands hefur verið falið það verkefni að vera leiðbeinandi í því hvernig haga beri uppbyggingu fiskeldis. Meðal annars hefur stofnuninni verið falið að meta áhættuna af því að eldisfiskur fari upp í laxveiðiár og blandist villtum íslenskum laxi. Hafró gaf út áhættumat sumarið 2017 fyrir Ísafjarðardjúp þar sem að mat stofnunarinnar var að ekki sé óhætt að vera með laxeldi í Ísafjarðardjúpi vegna þess að það sé of mikil áhætta fyrir laxveiðiárnar í Ísafjarðardjúpi út frá blöndun eldislax og villts lax.

Umrætt áhættumat gaf Hafró út í núverandi lagaumhverfi eins og stofnunin gerði þegar hún taldi óhætt að vera með 50.000 tonna eldi á Suðurfjörðum Vestfjarða og 21.000 tonn á Austfjörðum. Þegar að áhættumatið leit dagsins ljós fékk það strax mikla gagnrýni. Sú gagnrýni var meðal annars sú að áhættumat sem þetta hefði hvergi verið gert í heiminum og væri þar að leiðandi ekki rýnt vísindalega en einnig á þeim forsendum að ekki væri tekið nægjanlega vel tillit til nýjustu upplýsinga um eldisbúnað eins og öruggari kvía sem leiða til minni slysasleppinga. Áhrifa þess að nota ljósastýringar og setja stærri seiði út auk aðgerða til að fjarlægja eldisfisk sem hugsanlega myndi ganga upp í laxveiðiár. Allt aðgerðir sem miða að því að líkur á erfðablöndun minnki verulega.

Fiskeldisfyrirtækin sem hefja vilja laxeldi í Ísafjarðardjúpi hafa þar af leiðandi óskað eftir því við Hafró að það endurskoði áhættumatið út frá þessum forsendum þannig að kannað verði hvort að mögulegt sé að hefja fiskeldi í Ísafjarðardjúpi á sama tíma og tryggt verði að erfðablöndun í laxveiðiám verði undir áhættumörkum.

Hafró í pólitískri vegferð

Viðræður við Hafró um endurskoðun áhættumatsins hafa nú staðið yfir í eitt ár. Niðurstöðuna kynntu þeir í morgun. Nú neitar stofnunin því að endurskoða matið á þeim forsendum að ekki sé nægjanlega lagalega sterkur grundvöllur til að draga úr eldi sem leyft hefur verið. Nú eru það sem sagt ekki vísindin sem stoppa menn heldur lagaumhverfið. Sama lagaumhverfi og var til staðar þegar sama stofnun gaf út að óhætt væri að gefa út 71.000 tonna leyfi fyrir ári síðan. Er þetta boðlegt?

Er til of mikils ætlast að Hafró hugsi í lausnum?

Ljóst er að miklir hagsmunir eru undir fyrir Vestfirðinga, fiskeldisfyrirtækin og þjóðina alla. Flest erum við sammála um að rétt sé að fara varlega. En þegar að stofnun er falið veigamikið hlutverk í þessari uppbyggingu, er þá ekki hægt að gera þær kröfur að hún vandi til vinnubragða og hjálpi til við að leita leiða til að koma að atvinnuuppbyggingu sem getur skipt sköpum fyrir þúsundir íbúa. Er það til of mikils ætlast að stofnunin reyni að hugsa í lausnum í stað þess að neita að endurskoða umrætt áhættumat vegna þess að hún er í pólitískri vegferð vegna lagasetningar um fiskeldi. Það hefði verið auðvelt fyrir stofnunina að gefa út nokkrar sviðsmyndir með þeim skilyrðum sem þeir telja vænleg. Þegar að stofnunin fer fram með þessum hætti og svona óvönduðum vinnubrögðum er útilokað að fela stofnuinni jafn mikla ábyrgð og gert er ráð fyrir í því lagafrumvarpi sem nú liggur fyrir.

Daníel Jakobsson

Höfundur er formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

DEILA