Ekki er raunhæft að skilyrða fiskeldisleyfi á Íslandi við lokaðar kvíar eða eldi á geldlaxi. Þar ræður að tæknin er enn á tilraunastigi og ekki komin í notkun í háþróuðustu fiskeldislöndunum. Þetta er mat Höskuldar Steinarssonar, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva, en rætt er vði hann í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag. Umhverfisstofnun telur að eldisfyrirtæki ættu í matsáætlunum sínum að fjalla um möguleika á notkun geldfisks og einnig möguleika á notkun lokaðra eldiskvía í mati á umhverfisáhrifum nýrra staðsetninga.
Höskuldur tekur fram að margir fiskeldismenn bindi vonir við þróun nýrrar tækni – eins og lokaðra kvóa. Enn sé þó langt í land með að þær verði raunhæfur kostur.
Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Guðmund Val Stefánsson, fiski- og sjávarlíffræðing. Hann telur það misskilning að lokaðar kvíar sem nú eru í þróun erlendis komi í veg fyrir slysasleppingar. Þótt fiskurinn sé í lokuðu kerfi þurfi til dæmis að koma honum í viðkomandi kví og taka hann aftur úr henni til slátrunar. Það er stór aðgerð, að hans sögn. Guðmundur segir að tilgangur með slíkum búnaði sé fyrst og fremst að loka eldislaxinn frá laxalús og kom böndum á sjúkdómum. Lúsin hefur verið mikið vandamál í norsku laxeldi, en enn sem komið er hefur hún lítt látið á sér kræla á Íslandi.
„Ég tel að líkur á slysasleppingum á laxi séu einnig minni en menn vilja vera láta. Orðið hafa tvær umtalsverðar slysasleppingar á laxi. Í báðum tilvikum slapp laxinn úr sláturkvíum en ekki eldiskvíum. Nú eru flestir hættir að nota sláturkvíar en taka fiskinn beint úr eldiskvíum. Þær eru gríðarlega sterkar og mikið þarf til að þær gefi sig,“ segir Guðmundur.
smari@bb.is