Tilkynning – Áfall fyrir Arctic Fish að áhættumatið sé ekki endurskoðað

Regnbogasilungur.

Fréttir Hafrannsóknarstofnunar um endurskoðun á áhættumati í Ísafjarðadjúpi eru gríðarlegt áfall fyrir Arctic Fish. Fyrirtækið hefur frá árinu 2011 verið að undirbúa laxeldi í Ísafjarðardjúpi og byggja upp laxeldi víðar á Vestfjörðum. Fyrirtækið hefur í góðri trú á fyrri ákvörðunum stjórnvalda um að heimila laxeldi á Vestfjörðum, fjárfest fyrir um rúmlega 6 milljarða króna með um 50 stöðugildi í Ísafjarðarbæ, Tálknafirði og Vesturbyggð og höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Ísafirði. Þessi ákvörðun Hafrannsóknarstofnun mun tefja allar frekari ákvarðanir um fjárfestingar og aukningu umsvifa fyrirtækisins á norðanverðum Vestfjörðum.

Sú ákvörðun sem Hafrannsóknarstofnun tekur í dag varðandi áhættumatið hefur stórvægileg áhrif á sjálfbærni fyrirtækisins. Það hefur verið stefna Arctic Fish frá upphafi að hafa sjálfbærni að leiðarljósi og til þess að ná því markmiði þá hefur þurft á ákveðinni langtímahugsjón að halda. Hluti af þeirri hugsjón er að vera með mörg eldissvæði til þess að geta hvílt eldissvæði reglulega. Þetta er gert til þess að lágmarka áhrif eldisins á nær umhverfið og er í raun ein af grundvallarforsendunum. Ísafjarðardjúp hefur því verið hluti af þeirri heildarmynd sem fyrirtækið hefur unnið út frá, enda er það framtíðarmarkmið að eldi fyrirtækisins geti verið víða á Vestfjörðum. Þessu til viðbótar er verið að fjárfesta í tækni, búnaði, rannsóknum og þróun til þess að koma í veg fyrir önnur möguleg neikvæð áhrif eldisins.

Hugmyndir um tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi til þess að vakta almenna þætti eru góðar og gildar og þarfnast mikils samráðs og góðs samstarfs við öll þau fyrirtæki sem hafa sótt um leyfi til að stunda laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Ef slík tilraun á að vera leiðbeindandi um áhrif laxeldis þá er nauðsynlegt að hafa í huga það er nú þegar stundað laxeldi á nægilega stórum mælikvarða bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum sem nota má til þess að meta raunáhrif eldisins án þess að farið sé í nýjar 5 ára rannsóknir um almenna áhrifa þætti eldisins. Þá hefur Arctic Fish fullan hug á að taka leiðandi þátt í þessum rannsóknum með Hafrannsóknarstofnun í Ísafjarðardjúpi og býður jafnframt önnur eldissvæði til rannsóknar svo að hægt sé að hraða allri vinnu í tengslum við frekari forsendur fyrir endurskoðun á áhættumatinu.

Ísafirði 05. Júlí 2018.

F.h. Arctic Fish,

Shiran Þórisson

DEILA