Fréttatilkynning Hafró um áhættumat áfall fyrir Vestfirðinga

Húsfylli var á íbúafundi um fiskeldi í Bolungarvík þar sem lofað var nýju áhættumati þegar sól stæði hæst á lofti.

Óhætt er að segja að niðurstaða Hafró um endurskoðun á áhættumati á laxeldi í Ísfjarðardjúpi sé áfall fyrir íbúa Vestfjarða. Þrátt fyrir að forstjóri stofnunarinnar hafi lofað nýju áhættumati þegar sól stæði hæst á lofti, er niðurstaða ráðgjafanefndar Hafrannsóknarstofnunar að ekki sé ráðlegt að breyta áhættumatinu við núverandi aðstæður. Fyrir liggur að miðað við það líkan sem notað er við ráðgjöfina að hægt væri að leyfa töluvert laxeldi í Djúpinu, bæði miðað við nýjustu upplýsingar og rannsóknir á hættu á erfðamengun vegna slysasleppinga og eins mótvægisaðgerðum sem fiskeldisfyrirtæki eru tilbúin að fara út í til að minnka áhættu. Þrátt fyrir gefið loforð á fjölmennum fundi í Bolungarvík er skautað fram hjá þessu á þeim forsendum að lagaforsendur skorti til að draga úr leyfum sem hugsanlega væru gefin út, ef í ljós kemur að áhætta er meir en gert var ráð fyrir. Þetta þýðir í raun og veru að ekkert áhættumat er til í dag sem hefur lagalegt gildi.

Vestfirðingar töldu að laxeldi í Ísafjarðardjúpi yrði byggt á vísindalegum grunni og notast við líkan sem væri fyrirliggjandi og gegnsætt. Ef forsendur gæfu tilefni til að breyta áhættumatinu laxeldi í hag, myndi það vera gert á hlutlægan hátt. Þegar leikreglur voru settar var ekki gert ráð fyrir huglægu mati eða persónulegar skoðanir myndu ráða för.

Reyndar er talað um í fréttatilkynningunni að leyfa takmarkaða tilraun um eldi á 3.000 tonnum af frjóum laxi til fimm ára. Slíkt eldi yrði aldrei arðbært og þyrfti því að kosta slíka tilraun með verulegum fjármunum, sem ekki er skilgreint hvaðan eigi að koma.

Vestfirðingar hljóta að spyrja sig að því hvort yfirvöld vilji nota vísindalegar aðferðir sem eru gegnsæjar og sanngjarnar til að byggja upp mikilvæga og arðbæra atvinnugrein á Vestfjörðum, eða einhverja óljósa huglæga aðferðafræði.

Gunnar

DEILA