Skipstjórar og stýrimenn á skipum Hraðfrystihússins-Gunnvarar útskrifuðust fyrir helgi úr 150 stunda námsbraut Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða sem nefnist Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti“. Skipstjórnarmennirnir nýta þannig tímann í sjómannaverkfallinu á uppbyggilega hátt, en þeir eru ekki í verkfalli ólíkt hásetum.
Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti er ætlað fólki á vinnumarkaði sem vill auka færni sína til að takast á við breytingar í starfi og stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til starfa, nýjunga, upplýsingatækni, samskipta og símenntunar og gera þá eftirsóknarverðari starfsmenn.
Þetta var yfirgripsmikið og fjölbreytt nám. Upphaflega var megináherslan lögð á aukna tölvufærni í Word, Excel, Outlook. Samhliða því var komið inn á leiðtogafærni, mannauðsstjórnun og vinnustaðamenningu. Farið var yfir virðiskeðjuna þar sem rætt var um meðferð afla og gæðastjórnun. Einnig voru fyrirlestrar frá Hafrannsóknastofnun um veiðarfæri, atferli fiska og hafstrauma í kringum landið.
smari@bb.is