Tríóið Tourlou kemur við í Edinborgarhúsinu á tónleikaferð sinni um landið. Tourlou býður tónleikagestum í ferðalag til landa á borð við Búlgaríu, Makedóníu, Armeníu, Grikkland, Ítalíu og Spán, segja sögur og spila farandtónlist. Tríóið flytur þjóðlagatónlist í eigin útsetningum og á efnisskránni kennir ýmissa grasa, allt frá melankólískum ballöðum til líflegrar danstónlistar. Eins og efnisskráin koma tónlistarmennirnir úr ólíkum áttum, frá Íslandi, Spáni og Hollandi.
Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá stofnun Tourlou hafa þremenningarnir farið í tónleikaferðalag um Spán og Japan, gefið út sinn fyrsta geisladisk og komið fram á hinum ýmsu tónleikum og tónlistarhátíðum í Hollandi og Belgíu. Tríóið skipa: Anna Vala Ólafsdóttir, selló og söngur, David Alameda Márquez, fiðla, víóla d’amore, mandólín og söngur, Mayumi Malotaux, fiðla, mandólín, söngur. Tónleikarnir hefjast kl. 20.
Sæbjörg
bb@bb.is