Hann Geiri vinur okkar er að tala um að ekki þurfi að hrósa Dönum fyrir neitt. Það er nú það. Að vísu var stjórn þeirra á Íslandsmálum alveg skelfileg á köflum. Öldum saman. Við hrósum þeim ekki fyrir það. Og við hrósum þeim ekki fyrir að vinna okkur 14 – 2 forðum. En við minnumst og hrósum vini okkar, Hemma Gunn, fyrir að hrópa til samherja sinna þegar hann skoraði, þegar leikar stóðu 9 – 1:
„Nú jöfnum við þetta, strákar.“
Vestfirska þrjóskan og húmorinn á fullu!
En 1874 létu Danir okkur fá stjórnarskrá, sem enn er í fullu gildi að mörgu leyti. Og 1904 útnefndu þeir Hannes Hafstein sem ráðherra Íslands. Og upphófst glæsilegt endurreisnartímabil. Hvað voru hin evrópsku nýlenduveldin að gera á því árabili við fólk sem ekkert hafði til saka unnið? Leópold Belgíukonungur og hyski hans í Kongó. Og Bretar, Frakkar, Hollendingar, Þjóðverjar og fleiri svokallaðar menningarþjóðir í löndum sem þeir kölluðu nýlendur sínar.
Þegar Danir afhentu okkur handritin, sjáöldur augna okkar, var það hvorki meira né minna en einstakur heimsviðburður í samskiptum þjóða. Jafngilti því að til dæmis að Bretar myndu opna British Museum og afhenda Egyptum sínar þjóðargersemar. Sá dagur er ekki enn í sjónmáli svo vitað sé.
Danir eiga það skilið að við hrósum þeim þrátt fyrir lélega stjórnun forðum.
„Flestum finnst gott að fá hrós og að hrósa. Þrátt fyrir það eru Íslendingar að mati margra ekki nógu duglegir að hrósa og segja sumir að það sé einfaldlega ekki hluti af þjóðarsálinni. Það er stundum eins og við viljum bara sjá neikvæðu fréttina. Það er skemmtileg áskorun að taka bara eftir jákvæðu fréttunum eða jákvæðu punktunum í heila viku. Það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt í öllu.“
Svo segir Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunarinnar í Mogganum.
Hallgrímur Sveinsson.