Það sjaldan ein báran stök eða tvær í leiklistarlífinu hjá honum Elfari Loga. Og líklega eru mjög fáar stakar bárur í einleiknum sem hann setur á svið í Einarshúsinu í Bolungarvík í kvöld. Leikritið sem þar verður flutt fjallar nefnilega um athafnamanninn og orkuboltann Einar Guðfinnsson, sem stundum er nefndur faðir Bolungarvíkur. Í leiklýsingunni segir: „Ungur að árum hóf Einar útgerð á sexæringi. Hugur hans stefndi hátt og áður en yfir lauk hafði Einar byggt upp mörg fyrirtæki í útgerð og margþættum rekstri. Hér er á ferðinni kraftmikil leiksýning þar sem róið er á ýmis mið og gjarnan teflt á tæpasta vað.“
Leikritið sem er eftir þá Elfar Loga Hannesson og Rúnar Guðbrandsson hefur fengið mikið lof. „Algjörlega frábær sýning, mæli með henni,“ sagði Gunnhildur Björk Elíasdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sagði: „Þetta er frábær sýning sem ég mæli óhikað með.“
Elfar Logi leikur Einar sjálfan en Rúnar sér um leikstjórn. Björn Thoroddsen samdi tónlistina og lýsingu hannaði Magnús Arnar Sigurðsson. Það er hið vestfirska Kómedíuleikhús sem setur EG á senu en sýningin hefst klukkan 20 í Einarshúsinu í Bolungarvík í kvöld.
Sæbjörg
bb@bb.is