Óvenjumikill sjávarhiti í haust varð til þess að meira varð vart við laxalús en ella í sjókvíaleldinu á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. „Lúsinni líður best við ákveðin skilyrði í sjónum og þau voru henni hagstæð í haust. Sjórinn var allt að tveimur gráðum hlýrri en hann hefur verið undanfarin ár,“ segi Víkingur og bendir á að það sé eins með lúsina og t.d. makrílinn; þegar aðstæður eru hagstæðar þá fjölgar henni.
Aðspurður segir hann að ekki hafi verið beitt aflúsun með efnameðferð. „Við myndum aldrei gera það nema í algjöru samráði og að beiðni Matvælastofnunar. Eins erum við með vottanir frá Whole Foods sem eru ströngustu vottanir sem hægt er fá og hún leggur okkur þá ábyrgð á herðar að við fylgjumst gaumgæfilega með lús og það höfum við gert og við erum ekki að hugsa um neina aflúsun.“
Víkingur leggur áherslu á að lúsin hafi ekki valdið neinum skaða á fiski. „Hitastig sjávar er komið í þrjár gráður núna, um leið og það fer niður fyrir fjórar gráður þá fer lúsinni að líða illa og við erum ekki að sjá lús í neinum mæli núna þannig að ég tel við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur. Í fyrra fór hitinn niður í eina gráðu og þá hverfur lúsin alveg.“
Að sögn Víkings hefur Arnarlax frá upphafi fylgst grannt með laxalús. „Það er partur af okkar starfi og við sáum óvenjulegar aðstæður í haust. Það sem við getum gert hér á Íslandi er að við getum verið samstíga í viðbrögðum. Það var ekki gert í Noregi þar sem hver var í sínu horni að bregðast vandanum og það gerði illt verra í þeirra tilfelli.“
Laxalús hefur valdið miklum búsifjum í norsku laxeldi og aflúsanir kosta laxeldisfyrirtækin stórfé. Laxalús getur náð miklum þéttleika í og við sjókvíar og séu kvíarnar staðsettar í nánd við gönguleiðar villtra niðurgönguseiða, getur lúsin valdið miklum afföllum. Laxalús hefur ekki verið vandamál í íslensku fiskeldi og lyfjameðferð síðast beitt fyrir aldarfjórðungi. Í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma kemur fram að með auknu sjókvíaeldi er nokkuð viðbúið að hún geri vart við sig í meiri mæli, ekkí síst í sumarlok og fram eftir haust.
smari@bb.is