Útskriftarnemi frá Háskólasetri Vestfjarða hlýtur National Geographic styrk

Briana Bambic hlaut nýverið styrk frá National Geographic. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Háskólasetur Vestfjarða hefur sagt frá þeim frábæru fréttum að Briana Bambic, sem útskrifast í júní úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðatjórnun, hlaut nýverið styrk frá National Geographic. Styrkurinn er ætlaður til að gefa ungu fólki tækifæri til að leiða verkefni. Hluti af lokaverkefni Briönu í meistaranáminu byggði á því að skapa sýndarveruleika sem gerir áhorfendum kleift að upplifa breytingar á kóralrifjum í Belís undanfarin 40 ár. Briana kafaði í kringum Lighthouse rifið í Belís og safnaði 360 gráðu myndefni með neðansjávar myndavél. Í framhaldinu bar hún saman þetta nýja myndefni við eldra efni. Með því að setja þetta ólíka myndefni saman í eina heild skapaði Briana sýndarveruleika sem var ætlað að kanna hvort upplifun fólks af slíku efni gæti breytt viðhorfi þess til lífríkis neðansjávar.

Með styrknum frá National Geograpic mun Briana vinna að því að bæta sýndarveruleikaupplifunina og víkka út upphaflegu meistaraprófsrannsóknina. Markmið hennar er að ákvarða gildi þess að nota sýndarveruleika sem tæki til að mennta og upplýsa almenning um málefni hafsins. Einnig eru til staðar tækifæri til að nota sýndarveruleika sem eftirlitstæki til að skilja betur notkun mannsins á vistkerfi sjávar og til að greina ógnir sem steðja að líffræðilegum fjölbreytileika. Vonir Briönu standa til þess að rannsóknin hjálpi til við að skapa „áþreifanlegri“ leið til að skoða veröldina neðansjávar og færa þessa veröld nær almenningi.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA