Mikil gleði á Íþróttahátíð leikskólanna

Leikskólakennarar eiga þakkir skildar fyrir sína frábæru vinnu. Mynd: Jenný Jensdóttir.

Íþróttahátíð leikskólanna í Ísafjarðarbæ og Bolungarvík var haldin þann 13. júní síðastliðinn. Þetta var í tíunda skiptið sem hátíðin er haldin og í ár komu þátttakendur frá leikskólunum á Sólborg, Tjarnarbæ, Eyrarskjóli, Laufási, Grænagarði og Glaðheimum. Hátíðin hófst árið 1998 og var þá haldin á hverju ári fram til ársins 2001, en eftir það var hún aðeins annað hvert ár en þá haldin í samstarfi við leikskólann í Bolungarvík.

Veðurútlitið í vikunni lofaði ekki góðu en leikskólakennarar og nemendur héldu samt sínu striki og fengu þetta fína veður á sjálfan hátíðardaginn. Þá var ýmislegt í boði fyrir börnin en alls voru um tuttugu stöðvar sem hóparnir flökkuðu á milli. Stöðvarnar voru til dæmis staðsettar á bak við Hlíf, í Jónsgarði og við kirkjuna og hluti af hreyfingunni fyrir litla fætur var að fara þarna á milli. Á stöðvunum fóru börnin svo í hina ýmsu leiki og þrautir, svo sem ratleik, fótbolta, tröppuleik og kastleiki. Þá var bæði söngstöð og bókatjald svo fátt eitt sé nefnt. Eftir herlegheitin fóru allir inn á lóð leikskólans og gæddu sér á grilluðum pylsum og safa.

Leikskólastarfsfólk vill sérstaklega koma þökkum á framfæri til krakkanna í unglingavinnunni sem stóðu sig frábærlega við að aðstoða við undirbúning dagsins. Þá á Kubburinn, íþróttafélag eldriborgara einnig þakkir skildar sem og allir sem hjálpuðu til á púttvellinum.

Sæbjörg
bb@bb.is

 

DEILA