Afmælistónleikar tónlistarskóla Vesturbyggðar

Tónlistarskóli Vesturbyggðar fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári. Að því tilefni voru haldnir afmælistónleikar á dögunum bæði á Bíldudal og Patreksfirði. Allir nemendur tónlistarskólans tóku þátt og verða fleiri tónleikar síðar á árinu í tilefni afmælisins.

Einar Bragi Bragason, skólastjóri Tónlistarskólans sagði í samtali við BB að gaman hafi verið að sjá allt ganga upp, þetta hafi verið mikið púsl fram á síðustu stundu. „Við fengum til okkar Jón H. sem er fjargítarkennari skólans til okkar og svo kom Sigtryggur Baldursson, öðru nafni Bogomil Font. Krakkarnir vissu svo sem ekki hver Sigtryggur er fyrr en eftir þegar þau komust að því að hann hafi spilað út um allan heim.“

Einar Bragi segir að spennandi tímar séu framundan varðandi tónlistarnám í Vesturbyggð. Skólinn hafi fengið afhent nýtt húsnæði á Patreksfirði og verið er að leita að möguleikum varðandi nýtt húsnæði á Bíldudal. „Við erum búin að fá húsnæðið afhent og ég er búinn að kaupa svið svo hægt sé að hafa litla tónleika þarna af og til. Það er gaman að segja frá því að það eru 86 nemendur í heildina í skólanum. Til samanburðar þá voru árið 2015 á bilinu 25 til 30 nemendur. Bæjarstjórn og fleiri hafa stutt vel við skólann, vonandi mun ný bæjarstjórn halda því áfram.“ segir Einar Bragi að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA